140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Skúli Helgason svaraði andsvari mínu á þann hátt að hann vildi ekki svara því sem væri ekki nákvæmlega tilgreint í þingsályktunartillögunni sem hann leggur fram. Ég hef sagt að efnislega er bara hið besta mál að leggja þetta mál fram, ég sé ekkert að því, en í röksemdafærslu hv. þingmanns kemur fram að það sé mikilvægt að læra af þessu. Ég held að hann hafi notað það orðalag sjálfur að brenna sig ekki á sömu hlutunum tvisvar.

Ég verð að viðurkenna að mér þykir ekki mikil sannfæring í þessum orðum, virðulegi forseti, ef menn vilja ekki ræða nákvæmlega það sem er í gangi núna. Ef menn vilja læra af mistökunum hljóta menn að vilja komast hjá því að gera sömu mistökin aftur, ekki satt? Ríkisendurskoðun hefur að vísu tekið út þessa einkavæðingu eða komið með ákveðnar athugasemdir við hana en ef menn vilja hafa rökstudda ástæðu til að fara yfir það aftur er sjálfsagt að fara yfir þetta mál sem er um það bil tíu ára gamalt. Ef menn hafa í fullri alvöru áhuga á að skoða þetta hljóta þeir að upplýsa um það sem er í gangi núna.

Virðulegi forseti. Það hefur reynst þrautin þyngri svo ekki sé dýpra í árinni tekið að fá upplýsingar um eðlilegustu hluti hér.

Menn eru að tala um að einkavæðingin árið 2002 hafi verið stór og þá vek ég athygli á því að framlögin til Sögu Capital og VBS eru hærri upphæð en sem nemur einkavæðingunni á Landsbankanum og Búnaðarbankanum 2002. Þá framreikna ég upphæðina, er ekki að miða við verðlag 2002.

Virðulegi forseti. Í skýrslu Atlanefndarinnar svokölluðu segir, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur að ríkisstjórn hvers tíma þurfi að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti standa eigi að sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Þingmannanefndin telur að Alþingi beri að lögfesta rammalöggjöf um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja og eftirlitshlutverk Alþingis sé þar tryggt.“

Um þetta var þingmannanefndin sammála og eftir því sem ég best veit allir hv. þingmenn. Þetta hljómar vel, en af hverju fara þá hv. stjórnarliðar ekki eftir þessu?

Ef hv. þm. Skúli Helgason ætlar í fullri alvöru að fylgja þessu máli eftir og segir að það eigi að læra af reynslunni, að hann vilji ekki gera sömu mistökin tvisvar, hlýtur hann að svara því af hverju hann fylgi ekki eftir sambærilegum og stærri málum núna. Hann hlýtur að svara því. (SkH: Þetta eru ekki sambærileg mál. Ég er búinn að fara yfir það margoft.) Hv. þingmaður kallar hér fram í að þetta séu ekki sambærileg mál og að hann sé búinn að fara yfir það margoft. Það má að vísu segja að það sé rétt, virðulegi forseti, þetta eru miklu stærri mál núna. (Gripið fram í: Nei, …) (Gripið fram í: … vitleysunni.)

Virðulegi forseti. Nú fer um stjórnarliða og kannski einhverja fleiri og það er gott, þá fær maður kannski viðbrögð frá þeim. (Gripið fram í.) Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í Byrs- og SpKef-málinu voru brotin lög um Bankasýsluna. Hæstv. fjármálaráðherra átti ekki að fara með það mál. Það var sett hér á laggirnar stofnun sem átti að fara með hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Af hverju gerði hún það ekki? Af hverju var ekki farið eftir lögum um Bankasýsluna? Það er skýrt í lögum um fjármálafyrirtæki að það þurfi að vera ákveðið eiginfjárhlutfall. Síðan er undantekning á því og við mjög sérstakar aðstæður ef verið er að vinna í málum má veita undanþágu í allt að 12 mánuði. Eiginfjárhlutfallið náði aldrei lögbundnu marki, var of lágt í rúmlega 20 mánuði. Það er bara grundvallaratriði ef menn eru að reka fjármálastofnun að þau uppfylli skilyrði um eiginfjárhlutfall.

Síðan hafa lögmenn bent á að ekki hafi verið lagaheimild fyrir stofnun sparisjóðs í tengslum við þetta. Sömuleiðis er alveg ljóst að fjármálaráðuneytið leppaði fyrir kröfuhafa og er það samkomulag á vefnum þar sem skýrt var tekið fram að fjármálaráðuneytið ætlaði að afhenda kröfuhöfum bankann. Það er ekki heimilt samkvæmt lögum.

Hér var sett á laggirnar sérstök stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þar var þetta mál svæft af hv. þingmönnum stjórnarliðsins.

Virðulegi forseti. Við erum búin að diskútera núna frá árinu 2009 um hvernig samningarnir séu á milli gömlu og nýju bankanna. Það er samkomulag sem ríkisstjórnin gerði en vill ekki upplýsa. Það er margoft búið að spyrjast fyrir um þetta í þinginu. Ég hef gengið eftir því að fá þessar upplýsingar. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið reynt til að koma í veg fyrir það neyddist fjármálaráðuneytið til þess að koma með þær upplýsingar en sleppti þá fylgigögnunum sem voru aðalatriði málsins. Ef menn segja að við eigum að læra af reynslunni, gera ekki sömu mistökin tvisvar og hvað þetta allt saman heitir, er þá ekki ágætt að byrja á því? Við getum alveg klárað þetta frumvarp og ég held að það sé alveg sjálfsagt en það væri afskaplega hjákátlegt að klára það án þess að taka hlutina sem eru nær í tíma. Hv. þingmaður þarf eðli málsins samkvæmt að taka afstöðu til þess þegar hann mælir fyrir þessu máli. Ef hv. þingmaður vill einungis skoða þá hluti sem voru gerðir fyrir áratug en ekki þá sem eru nær í tíma og skipta okkur hvað mestu máli standast ekki þær röksemdir sem hann hefur mælt fyrir hér og farið yfir. Þá er eitthvað annað sem liggur að baki og menn eiga þá að segja það.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið hér fram. Ég held að það sé alveg kjörið fyrir okkur núna að taka þau mál sem hafa farið hvað hæst í umræðunni, bæði þetta mál sem er tilgreint í frumvarpinu en sömuleiðis þau mál sem hér hafa verið tilgreind, hvort sem það er nýja einkavæðingin, VBS og Saga Capital eða Byr og Spkef. Ég held að það væri kjörið fyrir okkur að upplýsa um kaupverðið á Vestiu-fyrirtækjunum. Síðan er einkavæðingin á Sjóvá nokkuð sem hefur reynst erfitt að fá upplýsingar um þó að ég geti upplýst það að ég hef með hjálp úrskurðarnefndar um upplýsingamál fengið úrskurð í þá veru að Seðlabankanum sé skylt að láta mig fá upplýsingar sem Seðlabankinn vildi ekki láta mig fá. Ég hef samt ekki fengið þær í hendur.

Ef hugur fylgir máli er hér gott tækifæri fyrir okkur, hv. þingmenn, að vinna saman að því að lista þessi mál upp, ég tala nú ekki um að koma þeim í framkvæmd þar sem þau liggja fyrir, t.d. í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Lykilmaður í því er hv. þm. Skúli Helgason því að hann er einn af helstu forustumönnum Samfylkingarinnar. Núna þegar ríkisstjórnin hangir á einu atkvæði held ég að staða hv. þingmanns hafi aldrei verið jafnsterk til þess að koma slíkum málum áleiðis. Það verður fróðlegt að heyra hvort hann muni ekki fylgja þessum málum eftir um leið og hann fylgir þessu frumvarpi eftir.