140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:47]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er stundum ánægjulegt að vera á þingi því að fyrir kemur að hér séu fluttar ræður af lærdómi, visku og mælsku eins og gerðist áðan þegar hv. þm. Magnús Norðdahl tók til máls.

Mig langar til að bera upp þá spurningu vegna þess að hv. þingmaður heldur því fram að þetta snúist allt saman um hugsanlega breyttan meiri hluta á Alþingi: Telur hann það til þess fallið að varðveita frið í þjóðfélaginu að Alþingi sveiflist fram og aftur og taki upp lög, samþykktir og ákvarðanir ef það gerist að einn þingmaður skiptir um skoðun eða hugsanlega tveir? Væri það skynsamlegt? Væri það samboðið Alþingi?