140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Enn og aftur, frú forseti, ég tel að þeir hv. þingmenn sem hafa lýst því yfir að þeir hafi skipt um skoðun í málinu hafi rökstutt það mjög vel og með mjög málefnalegum hætti. Það er ástæða til að taka allar þær röksemdafærslur alvarlega og eins og þær eru settar fram.

Hvað varðar Icesave-málið var stærsti skaðinn sem Ísland varð fyrir ósanngjarnar árásir Breta og Hollendinga gegn íslenskum hagsmunum á þessum tímum, hryðjuverkalagabeiting Breta og það hvernig þessar þjóðir beittu sér gegn Íslandi í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru dæmi um ofbeldi og ofríki stórra þjóða gegn smáþjóð. Þetta olli Íslendingum miklum búsifjum. Ég tel að það hljóti að vera nokkuð langt seilst, frú forseti, ef slíkt á að vera grundvöllur fyrir því að lögsækja Geir H. Haarde, að það hafi orðið skaði vegna þessa máls. Hann er augljós en hann var ekki Íslendingum að kenna. (Forseti hringir.) Hann var þeim þjóðum að kenna sem fóru jafnharkalega og raun ber vitni gegn íslenskum hagsmunum.