140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:15]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hvergi í landslögum er að finna sérstaka heimild fyrir Alþingi til að stíga inn í ferli máls sem hafið er fyrir landsdómi enda mundi það grafa undan lögum um ráðherraábyrgð ef Alþingi gæti hvenær sem er afturkallað mál fyrir landsdómi og af hvaða ástæðum sem kynnu að henta þingheimi hverju sinni. Það kunna að vera rök fyrir því í ákveðnum tilvikum að Alþingi afturkalli ákæru á hendur ráðherra, og finna má því stað í lögum um meðferð sakamála, svo sem ef ákæran hefur verið byggð á mistökum eða fram hafa komið nýjar upplýsingar sem sanna sakleysi hins ákærða eða kollvarpa á annan hátt grundvelli ákærunnar. Ekkert af þessu á þó við í þessu tilviki og því er það hin rökrétta niðurstaða þessa máls að vísa tillögu um afturköllun ákærunnar frá því að hún byggir ekki á gildum efnislegum rökum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)