140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Árið 2001 skrifaði hæstv. forsætisráðherra á vefsíðu sína, með leyfi frú forseta: Núverandi lög um landsdóm eru orðin úrelt og hafa ekki fylgt þeirri framþróun sem orðið hefur á dóms- og réttarkerfinu.

Ég er sammála þessu. Þau réttarhöld sem þar fara fram eru nefnilega pólitísk, það eru stjórnmálamenn sem ákæra. Við erum að ákæra vini og fjandmenn og andstæðinga þannig að þetta eru ekki réttlát réttarhöld.

Í þriðja lagi hafa orðið efnislegar breytingar. Ef menn lesa erlend fréttatímarit þá er oftar og oftar vísað í það að einmitt það sem hinn ákærði, þáverandi forsætisráðherra, á að hafa gert var mjög til heilla íslenskri þjóð. Fyrir utan það að Hæstiréttur hefur staðfest neyðarlögin sem voru aðalafrek hæstv. forsætisráðherra og svo hefur ákærandanum hugsanlega snúist hugur, það ætlum við að ræða á eftir ef menn segja nei við þessari tillögu, sem ég geri.