140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hið svokallaða verðbólgumarkmið, sem er grundvöllurinn undir peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, sé ónothæft sem slíkt og nauðsynlegt og óumflýjanlegt sé að endurskoða þá hugmyndafræði alla. Þar með, frú forseti, er ég ekki að segja að það sé skynsamlegt í sjálfu sér að hverfa frá því að hafa sjálfstæða mynt. En sá grunnur sem er og hefur verið undir stjórn peningamála hjá Seðlabanka Íslands og byggir á verðbólgumarkmiði, tel ég að geti kallað yfir okkur töluvert mikla áhættu sem felst einkum og sér í lagi í því að flæði fjármagns sem nýtir sér vaxtamismunarviðskipti getur sett allt efnahagskerfið á hliðina. Að hluta til er það það sem kom fyrir hjá okkur í aðdraganda hrunsins.

Jafnframt er gríðarlega mikilvægt, og tek ég þar undir með hæstv. ráðherra, að tengja betur saman ríkisfjármálin og peningamálastjórnina. Þó þarf það að vera þannig að ljóst sé að skattlagningarvaldið og meðferð þess er Alþingis og getur aldrei verið á forræði Seðlabanka.

Ég vil líka benda á, frú forseti, að evruupptaka á Íslandi mun ekki verða okkur að kostnaðarlausu. Það er nóg að horfa í kringum sig í löndum ESB til að sjá í hvaða vanda mörg af helstu ríkjum sambandsins eru komin vegna þess að menn hafa haldið með röngum hætti á efnahagsmálum sínum og farið gjörsamlega út af. Með öðrum orðum, myntin er tæki og veldur hver á heldur. Það eru kostir við krónuna og það eru gallar við krónuna. Það eru kostir við evruna og líka stórir gallar. Ég tel augljóst að á næstu árum munum við búa við íslenska krónu og því verðum við að endurskoða strax, og það liggur á, þann grundvöll sem er fyrir peningamálastjórninni. Ég bendi einnig á, rétt eins og hæstv. ráðherra gerði, (Forseti hringir.) á ágæta grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag þar sem meðal annars er fjallað um valmöguleika á því sviði.