140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:44]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Ásmundur Einar Daðason eiginlega svara sér sjálfur. Ef vandræðagangur utan um þessi málefni dregst á langinn er hann auðvitað til skaða. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að við leitum álits þjóðarinnar í þessu máli, ekki um smæstu útfærsluatriði vegna þess að það er skylda okkar þingmanna að hafa útfærsluna með höndum heldur um grundvallarsjónarmiðin. Menn hafa ekki verið tilbúnir að samþykkja þau grundvallarsjónarmið sem við sem viljum breyta þessu kerfi höfum sett fram.

Það er ekki rétt hjá þingmanninum að gríðarlega ólík sjónarmið séu innan stjórnarflokkanna í þessu máli. Sá meiningarmunur sem er innan stjórnarflokkanna er fyrst og fremst bitamunur en ekki fjár. Meðal annars get ég nefnt að einn þeirra þingmanna sem hv. þingmaður nafngreindi hér og spurði hvort ég óttaðist ekki að ætlaði að fara að veita fjármuni, hugsanlegar tekjur af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar, í eitthvað annað en til byggðanna og atvinnunnar var hafður með í ráðum við samningu stjórnarsáttmálans þar sem þessi þunga áhersla er lögð á atvinnusköpun og eflingu byggða. Það er meginsjónarmiðið hjá okkur sem viljum þessar breytingar og maður skyldi ætla að þá væru full heilindi að baki þeirri stefnu sem sett er fram í stjórnarsáttmálanum.

Heilindi eru ekki nóg ef sáttin er ekki til staðar. Við viljum reyna að leiða þetta mál til lykta í sem mestum friði við samfélagið sjálft. Eins og ég sagði áðan er ekki nóg að hagsmunaaðilarnir geti unað sáttir við sitt (Forseti hringir.) vegna þess að þetta mál snýst ekki um greinina eina og sér.