140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

samningsveð.

288. mál
[15:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þjóni litlum tilgangi að karpa um eignarrétt á þessari hugmynd sem ég veit ekki hvort er framkvæmd á fleiri stöðum en í Bandaríkjunum, en hún hefur alla vega verið framkvæmd þar um langan tíma og er auðvitað ekki gallalaus frekar en aðrar hugmyndir.

Úr því að við erum að ræða hér um hvaða áhyggjur menn hafa finnst mér sú staða sem er komin upp núna vera bein afleiðing af þeirri skuldsetningarstefnu stjórnvalda sem hefur verið undanfarna áratugi og hefur algjörlega verið heilög kýr og ekki mátt gagnrýna með neinum hætti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um það. Ég hef að vísu mestar áhyggjur núna af fasteignabólu hér á landi sem meðal annars er til komin út af gjaldeyrishöftunum og ég hef mjög miklar áhyggjur að því að lífeyrissjóðirnir skuli vera píndir með skattlagningu sem er ekkert annað en tvísköttun til að koma með peningana hingað heim og auka enn frekar þrýsting á kerfið. Ég held að það sé engin innstæða fyrir þessum hækkunum á fasteignum. Ég held að við séum ekki að leggja grunninn að þeirri langtímahugsun að hjálpa ungu fólki til að eignast eigin íbúðir.

Þetta mál mun hins vegar án nokkurs vafa styrkja stöðu lántakenda. Ég held að vísu, sérstaklega við þessar aðstæður, að það muni ekki vera slæmt fyrir fjármálastofnanir sem ætla að starfa hér um langa hríð og fá fólk til að greiða af lánum sínum. Ég held að við þurfum að fá leiðréttingu í kerfinu sem er óhjákvæmileg, sama hvaða leið er farin. Þetta er hins vegar leið sem ætti að vera tiltölulega einföld og ekki útheimta neitt frá opinberum stofnunum eða neitt slíkt heldur styrkja fyrst og fremst stöðu lántakenda.