140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar.

[15:26]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ekki alls fyrir löngu, í fyrrasumar, ályktaði Alþingi í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar þann 17. júní að stofnuð yrði prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar og hún verði við Háskóla Íslands en starfsskyldur þess sem henni gegni verði við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, m.a. í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða. Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Vel þykir fara á því að starfsstöð prófessorsins verði á heimaslóðum Jóns Sigurðssonar því höfuðviðfangsefni prófessorsins verður rannsóknir og kennsla á þeim sviðum sem tengjast lífi og starfi Jóns. Æskilegt er að prófessorinn hafi búsetu nálægt starfsstöð sinni …“

Síðan er þess einnig getið að þessi prófessorsstaða sé lyftistöng fyrir svæðið og styrkur fyrir sagn- og stjórnmálafræðirannsóknir á Vestfjörðum þar sem nú þegar sé unnið að ýmsum hug- og félagsvísindaverkefnum. Það má geta þess að í hátíðarræðu á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar sem fagnað var á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 17. júní sl. tilkynnti hæstv. forsætisráðherra um þessa gjöf Alþingis til Vestfirðinga.

Nú hefur það borið til tíðinda að Háskóli Íslands hefur ráðið í þessa stöðu ágætan mann, Guðmund Hálfdanarson, sem gegnir nú þegar og hefur gert um allnokkurt skeið prófessorsstöðu í sagnfræði við Háskóla Íslands og mun þar af leiðandi halda áfram fyrri störfum við Háskóla Íslands í Reykjavík en fær nú greitt í nafni nýrrar prófessorsstöðu í nafni Jóns Sigurðssonar.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra:

Telur hún að með þessu hafi verið staðið fyllilega við þau fyrirheit og þær væntingar sem gefnar voru þegar tilkynnt var um þessa gjöf Alþingis til Vestfirðinga í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar? Er stöðuveitingin eins og að henni er staðið af hálfu Háskóla Íslands í samræmi við (Forseti hringir.) ætlan ríkisstjórnarinnar?