140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum.

[15:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hvað varðar frumvarpið um Ríkisútvarpið hafa tillögur nefndarinnar um það legið á vef menntamálaráðuneytis um nokkurn tíma nú í febrúar þar sem tekið var við umsögnum. Það hefur þegar verið unnið úr þeim umsögnum og ég vonast til þess að þessu frumvarpi verði dreift á þinginu í þessum mánuði. Það er mjög eðlilegt að vilja skoða það samhliða fjölmiðlafrumvarpinu.

Hvað varðar eignarhald mitt og annarra ráðherra hef ég litið svo á og hef oft sagt það hér, m.a. í þessum stól, að mér finnist lykilatriði að eignarhald á fjölmiðlum sé upplýst. Eignarhald mitt og annarra á Smugunni var upplýst strax og sá fjölmiðill var opnaður. Frá því í nóvember 2008 hefur skilmerkilega verið talið upp á vefsíðu hans hverjir eiga þar hlut. Mín skoðun hefur verið sú að það væri lykilatriðið, að þetta væri upplýst þannig að þeir sem nýta fjölmiðilinn geti þá myndað sér sjálfstæða skoðun.

Hins vegar er ég reiðubúin að taka umræðu um það og það má vel vera að ég eigi eftir að breyta um skoðun á því að við eigum að setja reglur um eignarhald þingmanna og ráðherra (Forseti hringir.) á fjölmiðlum. Fyrst og fremst hefur þó lykilatriðið verið að þeir sem lesa miðilinn viti að hverju þeir ganga og hverjir standi á bak við hann. Það hefur verið ljóst allan tímann á þeim tiltekna miðli sem hér er nefndur.