140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú breyting sem við ráðgerum að flytja við 3. umr. um málið lýtur að notkun á erlendum innstæðum til greiðslu til erlendra kröfuhafa, annars vegar erlendum innstæðum erlendis og hins vegar erlendum innstæðum í Seðlabankanum, er út af fyrir sig undanþága eða almenn regla sem Seðlabankinn fyrirhugaði að hafa í því regluverki sem fylgdi í kjölfar þessara laga. Það að lögfesta það nú er því ekki breyting á fyrirætlunum heldur fyrst og fremst til að taka af tvímæli um það gagnvart hinum erlendu aðilum að hér sé ekki verið að taka þessar erlendu lausafjárinnstæður inn undir höftin. Höftin þjóna auðvitað þeim tilgangi að vinna úr þeim vanda sem við erum í með krónuna. Það háttar hins vegar svo til um þá þætti sem þannig yrðu undanskildir að það er annars vegar reiðufé á erlendum bankareikningum sem gengur þá af erlendum bankareikningum til erlendra kröfuhafa án nokkurrar viðkomu á Íslandi. Hins vegar eru það erlendar bankainnstæður í Seðlabankanum sem menn verða auðvitað að geta haft traust á að geta leyst til sín, enda hefur Seðlabankinn lagt þær fjárhæðir inn á bankareikninga erlendis. Það að greiða þær innstæður út felur þess vegna fyrst og fremst í sér að losað er um bankainnstæður í erlendri mynt til að greiða erlendum aðilum með beinum hætti og hefur þannig í sjálfu sér heldur ekki viðkomu hér.

Verið getur að afmarka þurfi nánar þessar undanþágur, ef veittar verða hér í framhaldinu, með regluverki Seðlabankans en þetta eru auðvitað fjárhæðir sem hlaupa á verulegum upphæðum svo hundruðum milljarða skiptir en var aldrei ætlunin að taka undir höftin.