140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir skýringar hans við þessa umræðu. Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hversu líklegt hann telur að við getum á næstu árum, við skulum segja fyrir lok ársins 2013, afnumið höftin í ljósi þeirrar stöðu sem hann gerði að umtalsefni, nefnilega hversu hátt hlutfall af vöruskiptaafganginum við þurfum að nota til að standa undir afborgunum af lánum, annars vegar af lánum sem þegar eru til staðar á Íslandi, bæði hjá ríkinu og sveitarfélögum og opinberum fyrirtækjum, og hins vegar vegna þess gjaldeyrisvaraforða sem við höfum tekið ákvörðun um að vera með, og ekki okkur að kostnaðarlausu.

Í ljósi þess að ríkissjóður hefur fram á þennan dag verið rekinn með halla, meðal annars af þessum sökum, sýnist mér að útlitið sé ekkert sérstaklega bjart hvað snertir möguleika okkar til að afnema höftin eða komast í vænlega stöðu til að geta gert það á komandi missirum. Það þarf að minnsta kosti eitthvað mikið að breytast. Það sem þyrfti í mínum huga að breytast er að það kæmist virkilega mikil drift og kraftur í fjárfestingu á Íslandi, t.d. í nýtingu virkjanakosta, við þyrftum að eyða óvissu um sjávarútveginn, þyrftum að lækka skatta og skapa umhverfi fyrir nýjar fjárfestingar. En án þess, og ekkert af þessu er í kortunum í dag, sýnist mér að hv. þingmaður hafi í raun og veru verið að boða að við mundum ekki á næstunni komast í stöðu til að afnema höftin. Er það réttur skilningur hjá mér?