140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[14:52]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eðlileg notkun lyfja er einn þeirra þátta sem hefur aukið lífsgæði fólks um víða veröld. Þar eigum við vísindasamfélaginu stóra þökk að gjalda en hávísindalegar afurðir margra ára rannsóknarvinnu kosta að sjálfsögðu sitt. Stjórnvöld allra ríkja standa því frammi fyrir því að vilja vinna að velferð og heilbrigði þegna sinna með því að veita þeim aðgang að bestu hugsanlegu lyfjum á sem lægstu verði en jafnframt þurfa stjórnvöld að gæta ýtrasta hagræðis. Það hlýtur að vera flestum ljóst að á litlu markaðssvæði eins og Íslandi eru hagræðingaraðgerðir erfiðari en á þeim stærri.

Ísland ber sig saman við Bretland og Norðurlöndin hvað varðar lyfjategundir og verð til neytenda og hefur tekist ótrúlega vel að standa sig í þeim samanburði. Það auðveldar hinum litla íslenska lyfjamarkaði lífið að nýta sér rannsóknir nágrannalandanna við ákvarðanir um það hvaða lyf skuli nota hér. Það væri auðvitað afar hagkvæmt fyrir okkur að geta verið í samvinnu við önnur ríki um útboð, a.m.k. vegna dýrustu lyfjanna. Því miður virðast þær opnanir sem gerðar voru í þá átt á síðasta ári ekki hafa verið nægilega miklar og spurning hvort endurskoða þurfi þau ákvæði.

Lyfjakostnaður einstaklinga getur verið afar íþyngjandi ef einstaklingur þarf að nota mörg lyf. Nýtt kerfi er í vinnslu í frumvarpi um greiðsluþátttöku sem er í meðförum velferðarnefndar. Þar er komið til móts við þá einstaklinga sem mestan kostnað bera vegna lyfja með kostnaðarþökum upp á 65 þús. kr. en 45 þús. kr. hjá börnum og lífeyrisþegum.

Í umræðunni um það mál hefur verið rætt um hreyfiseðla og hvernig nýta megi þá til mótvægis við lyfjanotkun þeim sem þá nota til aukinna lífsgæða og vonandi til minnkaðrar lyfjanotkunar og þar með lækkaðs kostnaðar bæði fyrir einstaklinga og samfélagið. Við þurfum nefnilega að vera skapandi í hugsun og nýta allar færar leiðir sem mögulegt er til að lækka lyfjakostnað, bæði hins opinbera og hvers einstaklings og hvers heimilis, og um leið að auka lífsgæði.