140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Málið sem hér liggur fyrir og er komið til 3. umr. er óneitanlega jákvætt mál að því leyti að markmiðið með því er virðingarvert og gott.

Það er okkur öllum í mun að almenningur hafi aðgang að þeim upplýsingum sem hann varðar og eins að stjórnvöld hafi frumkvæðisskyldu þegar hætta skapast fyrir líf eða heilsu manna eða umhverfisvá. Það skýrir kannski hvers vegna þetta mál fór svo langt og svolítið undir radarinn hjá mörgum innan þingsins og eins úti í samfélaginu, umsagnaraðilum og öðrum. Menn töldu málið stefna að mjög jákvæðum markmiðum og þess vegna voru þeir ekki nægilega vel vakandi fyrir því hver áhrif þess yrðu í raun.

Það er rétt að geta þess að milli 1. og 2. umr. byrjuðu að koma ábendingar innan úr stjórnkerfinu um að ákvæði frumvarpsins væru með þeim hætti að erfitt gæti verið að framfylgja þeim. Meiri hlutinn í nefndinni, sem varð reyndar þegar upp var staðið 1. minni hluti, lagði til ákveðnar breytingar á frumvarpinu, að einhverju leyti til að koma til móts við þetta, en ég er hins vegar enn þeirrar skoðunar og kannski enn sannfærðari en ég var á fyrri stigum að þrátt fyrir hin jákvæðu markmið frumvarpsins kunni að reynast mjög erfitt að framkvæma það í anda þess lagabókstafs sem þar er að finna. Ég hef áhyggjur af því.

Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur, hvort sem við erum í umhverfisnefnd eða öðrum nefndum þingsins, að hlusta þegar þeir aðilar sem eiga að framfylgja þeim lagaákvæðum sem við setjum eða ætlum okkur að setja vara við vandkvæðum í sambandi við framkvæmdina. Það þarf ekki að ráða úrslitum en það er að minnsta kosti þess virði fyrir okkur að staldra við og hlusta á þá. Þess vegna taldi ég mikilvægt að fá t.d. sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem kom milli 2. og 3. umr., enda ljóst að miklar skyldur samkvæmt þessu frumvarpi leggjast á sveitarfélögin og víðtækari skyldur en þau hafa nú þegar.

Staðreyndin er auðvitað sú að það er til lítils að samþykkja frumvörp full af jákvæðum markmiðum ef ekki er hægt að framfylgja efni þeirra. Þá eru vandamál fyrir hendi, en ég skal ekki um það segja hvort þær áhyggjur sem fram hafa komið séu allar rökstuddar en það hafa komið ábendingar um að sú skylda sem lögð er á stjórnvöld samkvæmt frumvarpinu til upplýsingagjafar að eigin frumkvæði sé mjög víðtæk og geti leitt annars vegar til kostnaðar og fyrirhafnar í kerfinu og hins vegar til þess að upplýsingaflóðið, vegna þess að stjórnvöld telji sér skylt að dæla út upplýsingum, verði slíkt að þær upplýsingar sem raunverulega þurfa að ná eyrum landsmanna komist ekki til skila því að þær drukkni í upplýsingaflóðinu.

Þetta eru ekki tilefnislausar áhyggjur að mínu mati. Ég vek athygli á því að þessar athugasemdir koma frá sveitarfélögunum en sömu áhyggjur höfðu líka heyrst á fyrri stigum innan úr stjórnkerfinu, þ.e. stjórnkerfi umhverfismála. Ég held að þingið verði að átta sig á því að samþykkt þessa frumvarps, þrátt fyrir þá breytingu sem lögð er til af hálfu meiri hlutans í nefndinni, mun kalla á alls konar vandamál í framkvæmd.

Við getum sagt sem svo: Er það ekki allt í lagi, leysum við það ekki bara þegar að því kemur? Kannski, vonandi tekst okkur að leysa úr því ef þetta frumvarp verður að lögum. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ekki væri ráðlegra að bíða með að samþykkja svona reglur þangað til við sjáum fyrir okkur nákvæmlega hvernig á að vera hægt að framkvæma þær, hvað það kemur til með að kosta að framkvæma þær og hvaða afleiðingar það hefur að öðru leyti.

Þetta eru þau varfærnissjónarmið, hæstv. forseti, sem ég vildi koma á framfæri við þessa umræðu. Ég ítreka að markmið frumvarpsins eru fín, þau eru virðingarverð og góð — við hljótum öll að taka undir þau. En eru þau útfærð með þeim hætti að við séum að skapa okkur vandamál í framkvæmdinni? Mun það leiða til þess að menn sem eiga að framfylgja lögunum í stjórnkerfinu, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, muni leita leiða til að sleppa því að framkvæma ákvæðin eftir orðalagi þeirra af því að þeir ráði einfaldlega ekki við það út af tíma, mannafla, peningum eða einhverjum öðrum ástæðum? Til hvers er þá af stað farið?

Ég velti fyrir mér, hæstv. forseti, hvort ekki væri ráðlegra að reyna að leita annarra leiða, útfæra þetta nánar með einhverjum öðrum hætti í staðinn fyrir að gera eins og gert er í breytingartillögu meiri hlutans, að vísa bara vandamálinu að stórum hluta yfir á ráðherra sem á að útfæra helstu viðmiðanirnar í reglugerð. Það er svo sem ekki að finna neina sérstaka leiðbeiningu til ráðherrans um hvað hann eigi að hafa í huga í þeirri reglugerðarsmíð, en látum það liggja á milli hluta.

Erum við ekki að fara svolítið fram úr sjálfum okkur ef við ætlum að samþykkja þetta á þessu stigi þegar við gerum okkur ekki grein fyrir umfanginu í sambandi við að framfylgja þessu, þegar við gerum okkur ekki grein fyrir hvað það kostar annars vegar ríki og hins vegar sveitarfélög og þegar við höfum eingöngu óljósa hugmynd um hvaða raunverulegu áhrif munu nást fram ef við samþykkjum þetta?

Ég held að í framkvæmdinni muni menn lenda í vandamálum við túlkun ýmissa atriða sem þarna er að finna. Ég held að ráðherra muni lenda í töluvert erfiðri stöðu þegar og ef til þess kemur. Á að setja reglugerð þar sem hann á að afmarka nánar hvað teljist skaðleg eða hættuleg frávik? Þetta er alveg óskaplega yfirgripsmikið. Ég átta mig ekki á hvernig ráðherra á að gera þetta og ég er ekki viss um að neinn hafi hugsað til enda hvernig ráðherra á að gera þetta.

Spurning sem við hljótum líka að spyrja okkur, og þeir aðilar sem eiga að framfylgja þessum reglum þurfa að takast á við frá degi til dags, er hvaða upplýsingar þeir eigi að veita að eigin frumkvæði og hverjar ekki. Þá þurfa menn væntanlega að meta hvaða frávik vegna efna geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Þetta eru mjög matskenndir þættir.

Við erum öll sammála um það að í þeim tilvikum þar sem um verulega eða umtalsverða hættu er að ræða höfum við enga samúð með stjórnvöldum sem þegja yfir upplýsingum af þessu tagi. En reglan sem þarna er að finna er býsna fortakslaus, þetta er býsna víðtæk skylda. Það er, eins og ég sagði áðan, hætt við að stjórnvöld velji annaðhvort þá leið að girða fyrir allar hugsanlegar ásakanir um að þau hafi ekki haft frumkvæði með því að dæla út upplýsingum í gríð og erg þannig að úr yrði upplýsingaflóð sem enginn sæi fram úr eða þá einfaldlega að þau hummuðu það fram af sér og gerðu ekki mikið í því. Ég hef reyndar meiri áhyggjur af upplýsingaflóðinu.

Þetta vil ég, hæstv. forseti, koma með inn í þessa umræðu og ítreka það sem ég sagði áðan að ég held að það hafi verið mikilvægt að þau varnaðarorð sem er meðal annars að finna í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 1. mars komi fram í gögnum málsins í þinginu. Það getur hugsanlega skipt máli ef þessar reglur ná fram að ganga og menn lenda í því að túlka þær eða meta til hvers refirnir voru skornir, hvað haft var í huga og þess háttar. En ég verð að játa að mér finnst óvarlegt þegar settar eru reglur af því tagi að hlusta ekki á þá aðila sem þurfa að framfylgja reglunum, standa frammi fyrir því verkefni frá degi til dags að fylgja þeim og móta kannski um leið hvernig þær eiga að koma út. Mér finnst meiri hlutinn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd skauta tiltölulega létt yfir athugasemdir sem fram hafa komið, eins og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem ég sé ekki betur en séu fullkomlega málefnalegar.