140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert að heyra þetta. Það mætti halda að hv. þm. Birgir Ármannsson hafi bara ekki lesið breytingartillögurnar við frumvarpið. Um þær fullyrðingar að hér sé um að ræða ákvæði sem erfitt sé að framfylgja og skapi alls kyns vandræði og stjórnlaust upplýsingaflæði, þá fer því víðs fjarri vegna þess að búið er að taka mjög vel tillit til þeirra ábendinga sem bárust og lúta að þessu og búið er að takmarka mjög, sem var reyndar fyrir, skylduna til upplýsingagjafar.

Ég hefði haldið að til dæmis formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sem stendur fyrir þessari seinni átekt málsins, sem var í aðalhlutverki í díoxínmálinu sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður og bæjarstjóri vestur á Ísafirði þegar það kom upp — og er jú tilefni þeirra breytinga sem hér eru lagðar til — að sá ágæti maður mundi fagna því að lagabókstafurinn yrði skýrður betur vegna þess að hann skaut sér einmitt á bak við það að lagabókstafurinn um skyldu hins opinbera í þessu efni væri ekki nægilega skýr. Hann ætti því að fagna þessu.

Ég vil líka vísa á 6. gr. núgildandi laga sem kveður á um takmarkanir upplýsingaskyldunnar og meðal annars það að ekki er skylda, hvorki samkvæmt frumvarpinu né núgildandi lögum að afla sérstakra upplýsinga til að láta af hendi. Það er því algjörlega af og frá að hér sé um að ræða einhverja stjórnlausa upplýsingaskyldu eða hættu á stjórnlausu upplýsingaflæði. Það er ekkert flókið við að upplýsa það sem menn vita nú þegar. Um það snýst þetta mál, að stjórnvöld geti ekki skotið sér á bak við það að þeim beri ekki skylda til að upplýsa þegar þau vita af aðsteðjandi vá, t.d. þegar um er að ræða hundraðfalda díoxínmengun á skólaleikvelli úti á landi og stjórnvöld telja sér ekki skylt að upplýsa foreldra barna um slíkt ástand.