140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[16:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en ég vildi í ræðu minni benda á það sem ég óttast að sé að gerast með þeirri miðstýringaráráttu sem mér finnst vera í mjög mörgum af þeim frumvörpum sem hafa verið að koma hingað inn er snerta eftirlitsþætti umhverfismála og fleiri mála. Ég óttast að við séum einmitt að búa til dálitla flækju af málum og flóknari leiðir þegar tilkynna þarf alla mögulega hluti til ríkisstofnana sem eru miðlægar, risastórar, á höfuðborgarsvæðinu og hafa alla þætti eftirlits, stjórnsýslu og jafnvel refsinga á sinni hendi. Ég er þess eiginlega fullviss að við séum að fara úr kerfi sem á margan hátt hefur reynst okkur mun betur en það fyrirheitna land sem virðist vera í þessari miðstýringaráráttu.

Markmiðið hlýtur fyrst og fremst að vera að koma í veg fyrir umhverfis- og mengunarslys og að þegar þau gerast sé tryggt að við þeim sé brugðist nægilega fljótt. Í þeim málum sem hér hafa verið nefnd hefur mér einmitt sýnst að ekki hafi verið brugðist nægilega skjótt við vegna þess að miðstýrða aflið hér á höfuðborgarsvæðinu, ríkisstofnunin stóra, sem fer með alla þessa þætti og á að bregðast við, er ekki á staðnum. Hún er þar af leiðandi ekki með puttann á púlsinum. Ég held að það sé aðalástæðan.