140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[16:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að hefja þessa mjög svo brýnu og mikilvægu umræðu. Því miður höfum við búið við agaleysi hér undanfarin ár, reyndar frekar langt aftur í tímann, því miður. Ég vil nefna eitt dæmi. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ákvað að auka ríkisútgjöldin um 20% árið 2008 þrátt fyrir að allir vissu stöðuna, eins og ítrekað hefur komið fram í landsdómi í dag.

Ég sé ekki betur en að núverandi ríkisstjórn hugsi dæmið þannig að fyrst eitthvað mátti gera hér áður fyrr megi hún það líka. Það er hugsunarháttur sem við sem höfum verið hér í stuttan tíma þurfum að breyta. Við þurfum að fara út úr þeim hugsunarhætti.

Ég sé ekki betur en þeir liðir sem minnst hefur verið á umræðunni séu ekki nefndir í fjárlögum vegna þess að verið er að fegra stöðuna. Ég held við ættum bara að tala um málið nákvæmlega eins og það er.

Út kom skýrsla fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisbúskapnum fyrir árin 2009 og 2013 þar sem ríkisstjórnin setti sér viðmið um hvaða markmiðum hún ætlaði að ná á þessum árum. Ríkisstjórnin er því miður langt frá þeim mörkum, til dæmis varðandi heildarjöfnuðinn og frumjöfnuðinn. Svo getum við tekið umræðu um verðbólguna sem átti að vera komin niður í 1,6%.

Það sem þarf að gerast, virðulegi forseti, er að koma á aga í ríkisfjármálum. Ég er reyndar bjartsýnn á að hann verði aukinn á næstu missirum. Við höfum sett reglur fyrir sveitarfélögin en við eigum eftir að setja reglur fyrir ríkissjóð. Um það snýst málið, aga í ríkisfjármálum. Þá getum við vel búið við þann gjaldmiðil sem við höfum núna og við getum líka hætt að karpa um ýmsa (Forseti hringir.) hluti sem við rífumst um nánast daglega.