140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

málefni aldraðra og heilbrigðisþjónusta.

307. mál
[17:08]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndarinnar fyrir góða yfirferð á málinu. Ég hyggst ekki lengja þessa umræðu mjög mikið en það eru örfá atriði sem mig langaði til að ræða. Þegar málið var lagt fram leit það út fyrir að vera afar einfalt og við héldum að við gætum afgreitt það á mjög stuttum tíma. Það má segja að í þessu máli eins og svo mörgum öðrum var samvinnan í velferðarnefnd með miklum ágætum og allir tilbúnir til þess að leggja málinu lið og um þetta mál var mikil samstaða.

En það var ýmislegt sem kom upp þegar við fórum að velta málinu fyrir okkur, til dæmis þessi spurning um dvalarrými versus hjúkrunarrými. Við gerum okkur grein fyrir því að dvalarrýmum fækkar óðfluga og hjúkrunarrýmum fjölgar að sama skapi. Ýmis önnur úrræði eins og þjónustuíbúðir, heimahjúkrun og annað slíkt hafa komið inn í þjónustuna og á mörgum stöðum landsins breytt kannski svolítið þörfinni fyrir dvalarrými, en það var þó talsvert rætt í nefndinni að við yrðum að gera okkur grein fyrir því að ákveðin þörf gæti verið fyrir dvalarrými, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum þar sem heimahjúkrun virkar kannski ekki eins vel vegna fjarlægða. Við teljum eigi að síður að það eigi að vera í góðu lagi að sameina þessar matsnefndir því að þær hafa kannski verið dálítið að vinna sömu vinnuna.

Því var líka velt upp hvort ekki væri öruggt að aðgangurinn að þessum nefndum í hinum stóru heilbrigðisumdæmum væri með ágætum. Ákveðnir gestir hreyfðu við því að þegar aldraðir eða aðstandendur þeirra hefðu sótt um dvalarrými hefðu þeir gjarnan gert það í gegnum félagsþjónustuna. Það þarf aðeins að skoða hvort þessi samfella sé ekki örugglega í lagi.

Síðan tel ég það mjög merkilegt framtak og þakka Landssambandi eldri borgara fyrir það, að benda okkur á þá gamaldags orðanotkun sem verið hefur í allri þjónustu við lífeyrisþega eða ellilífeyrisþega. Ég tel að þær breytingar sem lagðar eru til hér séu mjög til bóta en með þeim er gert ráð fyrir því að fólk sé ekki vistað heldur dvelji það í raun af fúsum og frjálsum vilja og að fyrst og fremst sé verið að meta færni og heilsu en ekki einhverja þörf fyrir að leggjast inn á eitthvert hjúkrunarheimili. Ég held því að þessi orðanotkun sé verulega til bóta.

Síðan langar mig til að ræða aðeins skipun í matsnefndir. Ég held að sú ábending sem kom fram um að sjálfsagt væri að skoða hvort fólk sem er að leita sér sérstakrar menntunar í öldrunarfræðum kæmi ekki að þessum málum. Það er mjög eðlilegt að við tökum ákveðið tillit til þess að leitað sé til þeirrar fagstéttar þegar við á svo og sálfræðinga þegar við á. Mig langar sérstaklega til að nefna að ég held að við verðum að halda opnum þeim möguleika að hægt sé að kalla til fleiri sérfræðinga. Það er orðið þannig að talsvert margir íbúar landsins fara á hjúkrunarheimili áður en þeir hafa náð eftirlaunaaldri vegna einhvers konar sjúkdóma eða jafnvel fötlunar. Þá skiptir máli að kallaðir séu til sérfræðingar til að meta þörf þeirra. Síðan má halda langa tölu um það hversu heppilegt það er að yngri einstaklingar séu á hjúkrunarheimilum með miklu eldra fólki, en eins og við vitum er auðvitað heldur ekki hægt um allt land að vera með sérstakar stofnanir eða deildir fyrir þá landsmenn sem þurfa á því að halda að vera inni á svona sérstöku heimili með hjúkrun eða umönnun allan sólarhringinn. Ég held því að við verðum bara að fylgjast mjög vel með að þessir einstaklingar hafi það eins gott og kostur er, hvar sem þeir eru og það er spurning hvort ekki sé eðlilegast að við reynum, þar sem það er möguleiki eins og til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, að hafa þessa yngri einstaklinga sem mest saman.

Í þessu sambandi langar mig að árétta eitt varðandi þjónustu við eldri borgara sem ég held að skipti mjög miklu máli og var aðeins rætt í nefndinni, en ég tel að sú hugmyndafræði sem nú ryður sér mjög til rúms í þjónustu við fatlað fólk, um notendastýrða persónulega aðstoð, eigi líka virkilega vel heima í þjónustu við aldraða og ég veit að Landssamband eldri borgara hefur talsvert rætt það. Með notendastýrðri persónulegri aðstoð getur fólk búið lengur heima hjá sér og getur lifað sjálfstæðu lífi með þeim lífsgæðum sem því fylgir.

Þetta er gott mál og sú umræða sem fram fór í nefndinni um málefni eldri borgara var mjög góð. Eins og fram kom er ég á þessu nefndaráliti og styð málið að sjálfsögðu heils hugar og þær breytingartillögur sem koma hér fram.