140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

580. mál
[18:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og fyrir að flytja þessa tillögu. Ég kem hingað upp fyrst og fremst til að fagna því að tillagan sé komin fram. Það er mjög mikilvægt að þingmenn haldi áfram að reyna að koma með lausnir á þeim vanda sem er klárlega til staðar í íslensku samfélagi, þ.e. sá forsendubrestur sem varð á lánum heimilanna.

Ég held að tillagan sé mjög trúverðug tilraun til þess að finna lausn á þeim vanda. Ég treysti því að nefndin sem fær málið til meðferðar muni fara fljótt og vel yfir það og kanna þær leiðir sem hér eru nefndar. Það sem ég held að þurfi kannski einna helst að horfa á er fjármögnunin. Ég er ekki í aðstöðu til að gagnrýna hana hér og nú, ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að hún gangi 100% upp, þar af leiðandi er mikilvægt að sá þáttur verði skoðaður mjög vandlega.

Ég vil hins vegar taka undir með flutningsmönnum þegar bent er á þann mikla vanda sem er á ferðinni í samfélaginu enn þann dag í dag. Ekki hefur verið tekið á þeim forsendubresti sem varð á lánum skuldugra heimila þrátt fyrir að fjölmargar tillögur hafi verið lagðar fram hér í þingsal og jafnvel utan þingsalar um hvernig fara megi í það verkefni, allt frá árinu 2009. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að þar hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar verið nánast þeir einu sem hafa komið fram með tillögur um hvernig ráðast megi á vandann með heildstæðri lausn. Ég vil líka nefna fjölmargar tillögur og baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir þessum málstað sem hafa hvergi gefið eftir í að ná því fram.

Síðasta málsgreinin í greinargerðinni er kannski það sem segir allt sem segja þarf, þ.e. að það að leiðrétta lán heimilanna muni líklega hafa einhver þau mestu áhrif sem við munum sjá á íslenskt efnahagslíf, nái það fram að ganga. Eins og fram kemur hér hafa lán heimilanna hækkað frá hruni eða frá 2007, ég man ekki alveg hvort það er, um 360 milljarða, sem er vitanlega gríðarleg hækkun skulda og íþyngir þar af leiðandi öllum möguleikum heimilanna til að fjárfesta eða nota fjármuni eða innkomu sína í eitthvað annað en að greiða af skuldum. Þar af leiðandi fögnum við framsóknarmenn þessari tillögu. Við höfum lagt fram eins og allir vita frá 2009 nokkrar tillögur um hvernig fara megi í þessa almennu leiðréttingu. Hér er komin enn ein hugmyndin, tillaga sem verður að taka og skoða alvarlega. Ég vil því þakka flutningsmönnum fyrir að koma fram með tillöguna og gefa stjórnvöldum enn eitt færi á því að bregðast við þeim mikla vanda sem steðjar að íslenskum heimilum.