140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

umræður um fundarstjórn -- orð ráðherra -- málefni lögreglu.

[11:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera athugasemd við fundarstjórn forseta því ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að skilja að þingmönnum, þegar þeir biðja um orðið undir þessum lið, fundarstjórn forseta, sé meinað að koma hingað í pontu. Ég veit ekki hvaða reglur hæstv. forseti notaði við það. Ég held að margir í salnum hafi orðið vitni að því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson bað um orðið löngu áður en komið var að atkvæðagreiðslu og ég vil gera athugasemdir við þá fundarstjórn forseta að hleypa mönnum ekki í pontu. Það má ekki vera handahófskennt val forseta á hverjum tíma hvort þingmenn fái möguleika á að koma upp í pontu undir þeim liðum sem eru settir í þingsköp einmitt til þess að þingmenn geti rætt fundarstjórn forseta. Ég vil að hæstv. forseti taki þetta til greina og til umfjöllunar í forsætisnefnd.