140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir afskaplega áhugaverða tillögu til þingsályktunar, ég þakka honum fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt í hana.

Það er ljóst, eins og hann hefur bent á, sem fáir átta sig á, að allri atvinnustarfsemi fylgir áhætta, líka því að framleiða raforku til álvera, því fylgir áhætta. Það gæti til dæmis gerst að hægt yrði að framleiða ál með annarri aðferð en rafgreiningu en ég held að ál sé þriðja algengasta frumefnið í jarðskorpunni. Það mundi breyta öllum forsendum fyrir Landsvirkjun til hins verra ef sú aðferð fyndist.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Þegar hann talar um að félög, allt niður í 5–10 megavött, séu í eigu fyrirtækja sem eru meiri háttar opinber fyrirtæki, er hann þá að hugsa um að taka nýtingarréttinn af bændum sem eiga margir hverjir virkjunarkosti sem eru jafnvel yfir þessum mörkum; og sérstaklega þeir sem eru með hitaveitu eða heitt vatn eða gufuaflsvirkjunarmöguleika?

Síðan er spurningin um það að lífeyrissjóðirnir eignist hlut í Landsvirkjun — er það ekki þvert á lögin, sem samþykkt voru á Alþingi, um að ekki megi selja auðlindir landsins til lengri tíma en 65 ára? Öll virkjunarleyfi sem Landsvirkjun á eru ævarandi í sjálfu sér og ríkið á þau, en það má ekki selja þau til lengri tíma en 65 ára.