140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

230. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Bragi Sveinsson.

Með þessu frumvarpi er lagt til að endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndaframleiðslu verði hækkað úr 20% í 25%. Á undanförnum árum hefur mikil þekking skapast í kvikmyndagerð hér á landi, m.a. vegna aðgerða stjórnvalda sem snúa fyrst og fremst að því endurgreiðslukerfi sem komið var á með lögum nr. 43/1999, sem og aukinna framlaga til Kvikmyndasjóðs. Kvikmyndir, leikstjórar og leikarar hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar sem hafa haft mikið gildi í landkynningu. Eftirvinnsla kvikmynda sem er tímafrekasti þátturinn við gerð kvikmynda hefur einnig aukist hér á landi.

Bakslag hefur hins vegar komið í uppbyggingu þessarar atvinnugreinar, þessarar sprotagreinar hér á Íslandi vegna efnahagsástandsins og niðurskurðar hjá ríkinu. Flutningsmenn telja mjög mikilvægt að snúa þeirri þróun við og fjölga um leið störfum en áætlað er að um 70% af kostnaði við gerð kvikmynda sé launakostnaður. Því er lagt til eins og ég nefndi áðan að endurgreiðsluhlutfallið verði hækkað úr 20% í 25% og er þessi tillaga í samræmi við tillögur atvinnumálahóps Framsóknarflokksins sem lagðar voru fram á flokksþinginu 2011.

Í frumvarpinu má einnig finna ákvæði til bráðabirgða sem segir að þeir sem hafi fengið endurgreiðsluvilyrði fyrir gildistöku laga þessara eigi einnig kost á að sækja aftur um endurgreiðsluvilyrði eftir að endurgreiðsluhlutfallið hefur verið hækkað, enda sé framleiðsla kvikmyndar eða sjónvarpsefnis ekki hafin. Umræðan í samfélaginu um sköpun nýrra starfa hefur mikið til snúist um störf eins og til dæmis í stóriðju sem tekur töluvert langan tíma að koma á fót, en hvað varðar hins vegar þessi störf í kvikmyndagerð þá held ég að ef gerð væri sú breyting sem hér er lögð til ættum við að geta fjölgað töluvert störfum, og ekki endilega bara störfum sem krefjast sérþekkingar eins og ég nefndi áðan eða menntunar. Það er ekki óalgengt, þegar um er að ræða stór kvikmyndaverkefni, að fjölmargir statistar komi að vinnu við þau verkefni þannig að þar væri hugsanlega hægt að koma til móts við ýmsa þá sem hafa verið á atvinnuleysisskrá eða farið inn í skólakerfið vegna skorts á atvinnu.

Ég vonast til að málið fái jákvæða umfjöllun og legg til að því verði vísað til atvinnuveganefndar að lokinni umræðu.