140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

aðgangur almennings að hljóðupptökum Blindrabókasafns Íslands.

389. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þessari þingsályktun sem varðar dálítinn sjóð sem við Íslendingar eigum saman og heitir Blindrabókasafnið og hljóðupptökur þess á vegum Blindrafélagsins og síðar á vegum Blindrabókasafns Íslands. Hefur um áratugaskeið verið unnið að því að taka upp lestur á bókum af ýmsu tagi og hafa sömuleiðis verið varðveitt til útláns og raunar einnig upptökur á lestrum úr Ríkisútvarpinu en í áranna rás hefur safnast upp í Blindrabókasafninu talsverður fjöldi titla sem blindir og sjónskertir hafi einir haft aðgang að, eldri borgarar raunar líka og á síðari árum í vaxandi mæli þeir sem eiga við lestrarörðugleika að stríða, svo sem lesblindir.

Þessi safnkostur hefur verið byggður upp í góðri samvinnu við rétthafa og auðvitað á þeim forsendum að hér væri verið að lána út til hópa sem hefðu sérþarfir á samfélagslegum forsendum en ekki viðskiptalegum og því hefur uppbygging kostsins notið sérstakrar velvildar útgefenda, höfunda, þýðenda, lesara og annarra.

Nú hefur hins vegar öll tækni við að miðla lestri bóka tekið miklum stakkaskiptum frá því sem áður var. Áður fyrr voru bækurnar fjölfaldaðar á snældur. Hverja bók þurfti að geyma á mörgum snældum. Hver bók var tiltölulega umfangsmikil og hana þurfti síðan að senda hverjum notanda og notandinn að senda hana aftur til safnsins með allri þeirri fyrirhöfn sem því fylgdi. Það takmarkaði auðvitað mjög hve mörgum bókasafnið gat sinnt og því eðlilegt að útlán væru takmörkuð mjög stranglega við þá sem beinlínis þurftu á þeim að halda. Nú er tíðin öll önnur. Tugir þúsunda Íslendinga eiga lítil tæki til að hlusta á tónlist eða bækur eða annað efni með einföldum hætti, hvort sem það eru mp3-spilarar, ipod eða hvað þessi tæki eru kölluð, og sá hópur fer sífellt stækkandi sem notar sér þessa tækni til að hlusta sér til yndisauka hvort sem er á tónlist eða lestur, leikrit eða hvað eina sem hægt er að fá í hljóðformi og njóta við útivist, dagleg störf, í hlaupatúrum sínum eða hvar það nú er.

Sem betur fer eru miklu stærri hópar en áður farnir að njóta hljóðbóka því að hljóðbækur eru sannarlega miklir kostagripir. Þegar efnið er gott og lesturinn vandaður er fátt yndislegra en að njóta þess í góðu umhverfi og ekkert tilefni til að takmarka lengur aðgang að því sem við eigum af slíku íslensku efni sérstaklega við þá hópa sem hafa sérþarfir. Með tilkomu internetsins skiptir í sjálfu sér engu máli hversu margir vilja nýta sér þær upptökur sem um ræðir meðan þær eru til á tölvutæku formi og hægt að gera þær aðgengilegar um internetið, þá bitnar það ekki á neinum notanda þó að annar notandi fái lánað eintak því það gerist bara rafrænt. Má almennt um það segja að þeim mun fleiri sem fá bækur að láni því betra. Þar með opnar það möguleika á því að gera hljóðbókasafnið okkar, Blindrabókasafnið, að almenningsbókasafni eins og þau almenningsbókasöfn sem við höfum rekið fyrir prentaðar bækur eða svartletursbækur eins og við sjónskertir köllum þær oft, og gefa Íslendingum einfaldlega kost á því að hlusta á þær ágætu upptökur sem til eru á safninu.

Þetta kallar á talsvert undirbúningsstarf ef vel á að takast til því það þarf auðvitað að semja við þessa þætti um rétthafana, bæði við rithöfunda og við útgefendur. Sömuleiðis þarf að fara í gegnum bókakost Blindrabókasafnsins og velja úr nægilega gott og nægilega vandað efni til að það eigi erindi við almenning. Það er dálítið til af lestrum bóka sem ekki uppfylla almennar gæðakröfur, hefur kannski fyrst og fremst verið lesið fyrir einn einstakling sem partur af námsefni og annað slíkt og ekki verið útbúið í þeim gæðum sem kröfur eru gerðar til um efni sem allur almenningur á að njóta. Það þyrfti að fara yfir tæknihliðina á þessu og tryggja að Blindrabókasafnið beri ekki kostnað af útlánunum til almennings þannig að ekki verði dregið úr möguleikum safnsins til að sinna þeim hópum sem því er ætlað að sinna heldur þyrfti þá sérstaklega að gera þeim kleift að sinna þessari viðbótarþjónustu líka.

Í þingsályktuninni er ekki gert ráð fyrir því að tekið væri gjald af slíkum útlánum fremur en tekið er gjald af útlánum á almenningsbókasöfnum almennt og yfirleitt. Ég skal þó ekki útiloka það með öllu eða þá samstarf á milli útgefenda hljóðbóka og þessa safnkosts þar sem hvor þátturinn styrkti annan. Það geta auðvitað verið nokkuð flóknar viðræður við höfundaréttarhafa hvenær til að mynda eigi að vera boðið upp á hljóðútgáfur af nýjum bókum með þessum hætti. Það þarf áfram að vera hvati fyrir menn til að gefa út hljóðbækur fyrir almennan markað sem fólk getur bara keypt í bókabúðum eða á internetinu jafnharðan og gæti t.d. verið spurning um að þær verði aðgengilegar sem bókakostur á almenningsbókasöfnum eftir eitt ár frá útgáfu eða 18 mánuðum eftir útgáfu. Það mætti auðvitað einnig hugsa sér að eitthvert lágmarksgjald væri innheimt fyrir útlánin í þessu formi þó að það væri kannski dálítið sérkennilegt þegar horft er til þess að bækur almennt á bókasöfnum hafa auðvitað verið lánaðar út endurgjaldslaust um áratugaskeið. En eðlilegt er að rétthafar fái auðvitað greiðslur fyrir hvert útlán eins og er á öðrum almenningsbókasöfnum.

Til að vinna að þessu máli er gert ráð fyrir því í þingsályktunartillögunni að menntamálaráðherra verði falið að skipa nefnd sem undirbúi þessa nýju þjónustu til að opna íslenskum almenningi aðgang að þessu efni. Við erum miklir bókaunnendur og hér eru sem betur fer gefnar út mjög margar bækur en við erum engu að síður lítið málsvæði og það að hafa gott framboð hljóðbóka er ekkert áhlaupsverk fyrir lítið málsvæði eins og okkar, en þetta gæfi kost á því að allir hefðu aðgang að töluverðum kosti bóka þegar í upphafi og gætu tileinkað sér það að hlusta á bækur. Ég er þess fullviss að slík starfsemi mun ekki draga úr möguleikum manna til að gefa út hljóðbækur á viðskiptalegum forsendum heldur mun hún auka þá vegna þess að þeim mun fleiri sem kynnast þessum formum þess fleiri munu vilja kaupa útgáfur nýrra bóka á því formi. Það er sú reynsla sem menn hafa erlendis. Menn sjá það til að mynda af þeim vefjum sem bjóða upp á hljóðbækur að þó að þar sé hægt að nálgast aragrúa hljóðbóka við nánast engu verði, iðulega einhvers staðar innan við 1 dollar hver bók, þó að mikið framboð sé af slíkum ódýrum hljóðbókum, þá hefur það styrkjandi áhrif fyrir sölu hinna sem eru nýjar og kosta meira fé.

Ég held að nái þetta verkefni fram að ganga muni það færa þúsundum og jafnvel tugþúsundum Íslendinga fjölmargar yndisstundir við að hlusta á góðan lestur vandaðra bóka. Ég vonast til þess að málið fái vandaða umfjöllun í nefnd og samþykki fyrir vorið svo að okkar ágæti menntamálaráðherra megi vinna að framgangi þess í framhaldinu og tryggja að af þessu geti orðið sem fyrst.