140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rannsóknarstarfsemi sem hv. þingmaður vísar til fer til Vegagerðar. Þar er að finna rannsóknir og þróun. Það er ekki verið að loka neinum dyrum. Það er heldur ekki verið að ráðast í breytingar og segja: Síðan ætlum við bara að sjá til. Alls ekki.

Þetta eru mjög markvissar breytingar. (VigH: Rangt.) Ég er hins vegar að segja að allt opinbert kerfi, öll stjórnsýsla eigi stöðugt að sæta endurskoðun. Hún á að svara nýjum kröfum tímans á hverjum degi. Við erum með þessu að búa til lagaumgjörð sem ég tel að muni gagnast okkur mjög vel. Þótt hér hafi komið fram ákveðnar gagnrýnisraddir, og ég hlusta á þær og við gerum það, þá eru þeir miklu fleiri sem eru mjög sáttir við þessar breytingar.

Ég segi fyrir mína parta að ég er fremur íhaldssamur þegar ráðist er í grundvallarbreytingar á stofnanakerfi. Það tók mig nokkurn tíma að fara í saumana á þessu en ég er orðinn fullkomlega sáttur við þetta og tel það verða til framfara. Ég er algerlega sannfærður um að svo verður.