140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

viðvera ráðherra við umræðu.

[17:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil áður en þessi umræða hefst að það sé að minnsta kosti greint frá því hvort það verði þannig að hæstv. umhverfisráðherra komi til þessarar umræðu. Jafnan er það svo að þegar ráðherra hefur flutt mál og málið er komið til 2. umr. og um er að ræða veigamikið mál eins og þetta er það bara sjálfsagður siður, og þarf í sjálfu sér ekkert að ganga eftir því almennt talað við ráðherra, að þeir séu þá viðstaddir hina efnislegu umræðu sem fer síðan fram um frumvarpið lið fyrir lið eins og jafnan er nú um 2. umr.

Við tókum til dæmis eftir því hér áðan að þá var verið að ræða mál hæstv. innanríkisráðherra. Hæstv. innanríkisráðherra var hér viðstaddur, tók þátt í umræðunni, tók þátt í andsvörum, tók síðan þátt í umræðunni að öðru leyti. Mér finnst það bara sjálfsagður hlutur að hæstv. umhverfisráðherra sé hérna, bæði af þessum ástæðum og síðan því sem ég nefndi hérna áðan að verið er að opna gríðarlega miklar reglugerðarheimildir sem eru að mörgu leyti óskilgreindar og enn fremur hitt, sem hv. þm. Birgir Ármannsson (Forseti hringir.) vakti athygli á, að hér eru gerðar breytingar sem eiga rót sína að rekja til (Forseti hringir.) hæstv. umhverfisráðherra. Þess vegna er mjög mikilvægt, (Forseti hringir.) áður en þessi umræða hefst, að gengið sé úr skugga um að hæstv. ráðherra komi til umræðunnar.