140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær umsagnir sem liggja fyrir í þessu máli eru langflestar mjög gagnrýnar á efni þessa frumvarps. Meðal annars er gagnrýnt að þarna sé mögulega verið að vega að eignarréttinum og í einni umsögninni, ég hygg frá Landssambandi veiðifélaga eða Landssamtökum landeigenda, er talað um að þetta hafi í för með sér skerðingu á eignarrétti. Þegar svona alvarleg athugasemd kemur frá hagsmunaaðilum sem skipta mjög miklu máli þegar kemur að þessu frumvarpi hefði maður getað vænst þess að leitað hefði verið eftir því hjá sérfróðum aðilum, til dæmis úr háskólasamfélaginu, hvort með þessu frumvarpi og þeim breytingartillögum sem fyrir liggja af hálfu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sé verið að vega að eignarréttinum í landinu.

Þegar ég lít síðan yfir listann um þá sem hafa komið til nefndarinnar og skoða þau gögn sem fyrir liggja fæ ég ekki séð að í raun hafi verið gerð nein alvarleg tilraun til þess að skoða réttmæti þeirrar gagnrýni sem hefur verið sett fram af hagsmunaaðilum sem hafa mikla lögvarða hagsmuni og benda auðvitað á hluti sem eru mjög alvarlegir. Sé það svo að frumvarpið feli í sér skerðingu á eignarrétti og brjóti mögulega í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu, eins og einnig er vikið að í umsögnum umsagnaraðila, þá hefði ég talið það einnar messu virði fyrir samgöngunefnd að fara yfir þau mál með sérfróðum aðilum. Ekki verður séð að það hafi verið gert heldur er það bara mat meiri hluta nefndarinnar að frumvarpið feli ekki í sér skerðingu á eignarrétti landeigenda.

Ég skal játa að mér er ekki mikið rórra við það þó ég heyri þetta pólitíska mat meiri hluta nefndarinnar. Þetta er bara mat hins pólitíska meiri hluta og ég get ekki séð af upptalningunni, (Forseti hringir.) að til dæmis landeigendur hafi verið kallaðir á fund nefndarinnar. Ég hélt satt að segja að það hefði verið svo en í upptalningunni sé ég ekki að það hafi verið. (Forseti hringir.) Ég spyr því hvort þeir hafi ekki haft tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri beint og milliliðalaust á fundi.