140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:45]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Nú er lokið 2. umr. um tvo mikla lagabálka sem taka til stjórnsýslu samgöngumála og eiga sér langan aðdraganda. Samgöngugeirinn verður settur undir eitt sameiginlegt þak, annars vegar stjórnsýsluna í Farsýslunni og hins vegar rannsóknir og framkvæmdir við eina samgöngustofnun, Vegagerðina.

Fram hefur komið að fullyrðingar um fjárhagslegan ávinning og hagræðingu af þessum breytingum kunni að byggja á ofmati og ég tek undir það. Hitt tel ég hins vegar að sé meira um vert, að samhæfing og samlegðaráhrif innan málaflokksins í heild sinni verði til góðs þegar fram líða stundir.

Varðandi ábendingar um að einstakir þættir eða verksvið kunni að eiga betur heima í öðrum stofnunum hefur komið fram að slíkt verði kannað nánar í framhaldinu. Með ramma þessara frumvarpa er dyrum haldið opnum en ekki lokuðum fyrir frekari hugsanlegum breytingum.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að taka málið aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og fara yfir þessa þætti nánar en einu vil ég halda til haga sem er mikilvægt fyrir þingmenn og þingheim allan (Forseti hringir.) að vita: Ef við afgreiðum þessi mál ekki núna erum við í reynd og í praxís að dæma þau til óbreyttrar stöðu (Forseti hringir.) til fyrirsjáanlegrar framtíðar.