140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er stundum kaldhæðin í garð lögfræðinga sem standa mér nærri og hafa alið mig upp.

Hér er ekki talað um allar náttúruauðlindir. Við getum sett það í skýringu ef það hentar lögfræðingum betur að þar sé ekki átt við berin á einhverjum bóndabæ eða laxveiðihlunnindi. (Gripið fram í.) Venjulegt fólk (Gripið fram í.) skilur þetta alveg hreint en það er enginn vandi að útskýra það nánar.

Svo er hárrétt hjá hv. þingmanni að greinargerðin um það hvað þjóðareign er er löng og ítarleg. Þá þurfum við ekki að eyða svo löngum tíma í að ræða það hér. Skilgreiningin er í skýrslunni og þá erum við með hana. Síðan getum við hv. þingmaður haft mismunandi skoðanir á því hvort það sé eðlilegt að renta af því sem maður á renni til manns sjálfs eða einhvers annars. Ég tel að ef þjóðin (Forseti hringir.) á fiskveiðiauðlindina eigi hún að njóta rentunnar af henni. [Kliður í þingsal.]