140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér datt nú í hug þegar ég sat og hlustaði á þessa ræðu að í stjórnarskrá okkar segir að forseti Íslands sé ábyrgðarlaus að stjórnarathöfnum, en það virðist vera þannig að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telji að Alþingi sé eiginlega ábyrgðarlaust þegar kemur að því að ræða um stjórnarskrána eins og málin eru lögð hér upp.

Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður segir að ef við ætluðum að hafa eitthvert vit í þessu og menn meintu það að spurningarnar ættu að lúta að niðurstöðum stjórnlagaráðsins, stjórnlaganefndarinnar, væri eðlilegast að vísa með einhverjum hætti í þær. Það er hins vegar ekki gert. Þetta eru spurningar sem standa sjálfstæðar, þær eru lagðar fyrir okkur og við tökum afstöðu á grundvelli þeirra. Þá komumst við í þann vanda sem ég nefndi áðan.

Ég lýsti því til að mynda hver væri afstaða mín varðandi fiskimiðin í kringum landið. Ég er hins vegar mjög andsnúinn öllum hugmyndum um að þjóðnýta náttúruauðlindir sem núna eru í einkaeigu. Ég hefði haldið það fyrir fram að til dæmis hér á Alþingi væri meiri hlutinn andvígur því. Ég hef tekið eftir því að ýmsir úr stjórnarliðinu, til að mynda Vinstri grænum, hafa farið mjög mikinn þegar rætt hefur verið um hið svokallaða þjóðlendumál og fundið þeim hugmyndum allt til foráttu. Þar er þó bara verið að reyna að skýra eignarréttinn. Þar hafa þeir hins vegar talað um að verið sé að ganga á eignarrétt bænda. En í þessu máli eru menn allt í einu á öðru máli og ég tek eftir því að hér skrifa að minnsta kosti tveir þingmenn Vinstri grænna upp á það að leggja fram slíkar spurningar, eins og þeir telji að setja eigi það á dagskrá að þjóðnýta náttúruauðlindir sem eru núna í einkaeigu.