140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að hún virti þá viðleitni sem menn hefðu sýnt við samningu þessarar stjórnarskrár. Þetta er orðalag sem notað er í skólum stundum, það er gefið fyrir viðleitni en er ekki beint mjög mikill plús fyrir viðkomandi nemanda eða viðkomandi starf.

Ég vil spyrja hv. þingmann um þá upplausn sem fylgir í kjölfar breytinga á stjórnarskrá. Nú er það svo að þegar stjórnarskránni var breytt, mannréttindakaflanum var breytt 1995, því að stjórnarskránni hefur verið breytt töluvert, þá þurfti marga dóma frá Hæstarétti, kvótadóminn, öryrkjadóminn o.s.frv. til að skýra mannréttindaákvæðið. Hvað telur hv. þingmaður að gerist þegar allri stjórnarskránni er breytt? Í hvaða stöðu verður íslenskt þjóðfélag í áratugi á eftir meðan verið er að hreinsa út öll þau ágreiningsefni sem algjörlega ný stjórnarskrá býr til? Hefur hv. þingmaður hugleitt það?

Svo er spurningin um breytingu á stjórnarskránni. Þetta hefur lítið verið rætt en er mjög mikilvægt, þar stendur einfaldlega í tillögum stjórnlagaráðs sem þjóðin á að greiða atkvæði um, já eða nei:

„Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“

Það er ekkert ákvæði um meiri hluta á Alþingi. Af 32 þingmönnum sem mættir eru í sal gætu 17 samþykkt stjórnarskrána og enn færri ef einhverjir taka ekki þátt. Það er bara meiri hluti. Það er engin virðing borin fyrir stjórnarskránni. Síðan gerist það sama þegar þetta kemur til þjóðarinnar eða kjósenda, vil ég kalla það, þá er það bara einfaldur meiri hluti sem ræður. Ef þátttakan er lítil og lítill áhugi er á málinu eins og oft vill verða í þessu þá duga af 20% kjósendum 11% til að samþykkja breytingar.