140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og er gott að hann hefur áhuga á félagsvísindum og aðferðafræðinni við að semja spurningar.

Að sjálfsögðu verður að vanda til verka þegar ráðist er í það að spyrja þjóðina spurninga, annað væri vanvirðing við þjóðina. Það er grundvallaratriði að spurningar, hvort sem er í þjóðaratkvæðagreiðslu eða rannsókn í háskólanum eða öllum rannsóknum sem fram fara, séu vel grundaðar vegna þess að annars fæst ekki skýr eða rétt mæling. Auðvitað verður þetta ekkert annað en mæling á skoðunum og viðhorfum þjóðarinnar til þeirra spurninga sem lagðar eru fram. Ef spurning er óskýr, menn skilja hana á alla kanta í hina og þessa áttina, verða svörin að sjálfsögðu út og suður.

Ég er ekki á móti því í sjálfu sér að yfirfara stjórnarskrána og breyta henni en ég tel að þær breytingar eigi og geti vel byggt á þeirri stjórnarskrá sem við nú höfum. Ég tel ekki ástæðu til að umbylta stjórnarskránni. Ég tel ekki þörf á því, en ég tel hins vegar nauðsynlegt og mjög mikilvægt að við förum yfir hana og gerum breytingar á nokkrum ákvæðum. Það á hins vegar ekki að gerast á einhverjum handahlaupum.

Ég vona að þessar hugmyndir að spurningum hafi ekki verið unnar á handahlaupum en eins og hv. þingmaður tók eftir í ræðu minni þegar ég fór yfir þessar spurningar, hverja og eina, þá lítur það þannig út. Það lítur að minnsta kosti þannig út að grundvallarsjónarmið þegar spurningalisti er saminn hafi ekki verið höfð í huga, þ.e. að spurningarnar séu skýrar, svarmöguleikarnir einfaldir og skýrir og að rannsakandinn, þ.e. spyrjandinn, og sá sem svarar skilji (Forseti hringir.) spurningarnar á sama hátt.