140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er mikið talað um vinnubrögð og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir ræddi sérstaklega það sem ég vil gera að umtalsefni, hversu seint stjórnarfrumvörp koma til þingsins. Skoðum aðeins staðreyndir af því að við erum alltaf að tala um hvernig við getum bætt vinnubrögðin.

Starfsáætlun er gerð í samvinnu allra flokka og samþykkt. Ég held að hún hafi legið fyrir í ágúst. Þann 1. október flytur hæstv. forsætisráðherra stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Henni fylgir þingmálaskrá og mér taldist til að í kringum 200 frumvörp hefðu verið á þeirri málaskrá. Hún er svo uppfærð.

Staðan í dag er sú að það er búið að samþykkja 32 stjórnarfrumvörp og seinast þegar ég gáði voru rúmlega 40 stjórnarfrumvörp í nefndum. Það eru ókomin yfir 100 mál frá ríkisstjórninni sem hún boðar sjálf og við eigum 24 þingdaga eftir samkvæmt starfsáætlun. Við þekkjum öll þessi mál, stjórnarskrána, fiskveiðistjórnarkerfið, rammaáætlun, skuldavanda heimilanna.

Hvaða mál eigum við eftir að fá inn? Það eru engin smámál. Ég get nefnt að 20 mál eru ókomin frá efnahags- og viðskiptaráðherra, t.d. innstæðutryggingar. Man einhver eftir Icesave?

Sex eru ókomin frá fjármálaráðherra. Þar eru litlu málin eins og Vaðlaheiðargöng og fyrirkomulag sölu fjármálafyrirtækja í ríkiseigu.

Frá iðnaðarráðherra eru tíu mál ókomin, m.a. lengd afnotaréttar sem iðnaðarráðherra sagði reyndar á fundi í dag að hætt hefði verið við. Það er þó enn á skránni.

Innanríkisráðherra, þar erum við með fækkun sýslumanna, persónukjör, umferðarlög.

Velferðarráðherra. Þar erum við bara með litla málið sem heitir heildarendurskoðun almannatrygginga.

Þetta er alls ekki tæmandi listi, frú forseti, en þetta er staða mála á þinginu. Ég get nefnt Ríkisútvarpið og svo mörg önnur mál þegar 24 dagar eru eftir samkvæmt starfsáætlun sem við samþykktum öll. Fulltrúar okkar í forsætisnefnd (Forseti hringir.) samþykktu þessa starfsáætlun.

Þetta hefur legið fyrir, frú forseti. Trúir því einhver (Forseti hringir.) að þetta séu vinnubrögðin sem munu bæta afspurn, umtal og virðingu Alþingis? (Forseti hringir.) Nei, það er árangursleysið sem veldur því (Forseti hringir.) að Alþingi hefur misst virðingu sína og það er nokkuð sem ríkisstjórnin og forustuleysi hennar (Forseti hringir.) ber ábyrgð á.