140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:56]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að það er ekki Sjálfstæðisflokknum að þakka að hér var haldinn þingfundur í morgun klukkan 10.30, það var hins vegar fyrir liðlegheit Framsóknarflokksins, enda hefur hann sýnt af sér allt aðra tilburði til dæmis í dag en Sjálfstæðisflokkurinn. Í raun og veru virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera að sýna sitt rétta andlit, bæði í gær og ekki síður í dag. Á síðasta sólarhring hefur hann sýnt það framar öllu að hann er varðstöðuflokkur sérhagsmunaafla og forðast það í fyrsta lagi að láta framkvæma skoðanakönnun meðal þjóðarinnar um hvernig drög að nýrri stjórnarskrá eigi að líta út og svo ekki síður er hann að beina athyglinni frá efnislegri umræðu um málið, hvort og hvernig við eigum að skipta arði af auðlind þjóðarinnar meðal þjóðarinnar en ekki bara til sérhagsmunaafla. Um það snýst umræðan í dag og við eigum sem allra fyrst að hefja þá umræðu, það er hin pólitíska umræða sem við eigum að taka en ekki taka hér tæknilega pólitíska umræðu.