140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, já, þetta held ég að sé alveg hárrétt skilgreining. Og hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að halda svona á málum? Líklega treystir hún því að það sé alltaf hægt að plata fólk vegna þess að fólk vill yfirleitt, eins og ég var að lýsa í ræðu minni áðan, trúa því að það verði framfarir, að menn læri af reynslunni. Þá metur ríkisstjórnin það sem svo að þó að öllum nýliðum undanfarinna ára verði slátrað á einu bretti þá hljóti einhverjir að trúa því að það verði öðruvísi í framtíðinni. Rétt eins og það er reynt að fá erlenda fjárfesta til að koma hingað á sama tíma og stöðugt er verið að herða á gjaldeyrishöftum af því að það hljóti einhverjir að trúa því að í framtíðinni muni þessi ríkisstjórn haga sér öðruvísi.

Þetta er alveg einstaklega ósanngjarnt vegna þess að þeir nýliðar sem hafa verið að koma inn í greinina á undanförnum árum hafa þurft að skuldsetja sig mjög og hugsanlega í einhverjum tilvikum kaupa kvóta af þeim sem fengu kvóta úthlutuðum á sínum tíma. Ég held að milli 94 og 96% af þeim kvóta sem var úthlutað þegar kvótakerfið var tekið upp hafi skipt um hendur, verið seld svo að það er verið að taka kvóta af þeim sem skuldsettu sig til að komast inn í greinina, höfðu áhuga á að reyna að byggja upp þrátt fyrir að það kostaði þá skuldsetningu, hafa ekki fengið útdeilt kvóta. Það er verið að taka af þeim og hverjir ætli verði nýliðarnir? Gæti verið að það, eins og í fyrri tilraunum ríkisstjórnarinnar til að breyta kerfinu, verði einna helst þeir sem voru búnir að selja sig út úr kerfinu eins og við höfum séð gerast á undanförnum árum? Enn og aftur er verið að ráðast í breytingar sem eru ekki aðeins skaðlegar heldur líka mjög ósanngjarnar.