140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni gafst varla tími til að lesa upp spurningar sínar og ég get því augljóslega ekki svarað þeim öllum í þessu andsvari.

Fyrst varðandi það hvort ég sé hlynntur því að hafa hér kvótakerfi eða ekki, aflamarkskerfi, vona ég að sjálfsögðu að kerfið verði það áfram eins og ég tel reyndar að flestir séu sammála um þrátt fyrir allar þessar hástemmdu yfirlýsingar. Ég er hlynntur því.

Varðandi vexti til bankanna annars vegar eða það að borga fyrir að fá að veiða — ég fæ ekki annað lesið út úr þessari spurningu hæstv. ráðherra en að hann telji bara ágætt að þessi fyrirtæki fari á hausinn svo að í staðinn komi ný fyrirtæki sem þurfi ekki að borga bönkunum. Að bankarnir tapi á því að þessi fyrirtæki fari á hausinn og það komi ný fyrirtæki sem geti borgað í ríkissjóð. En hvernig eiga ný fyrirtæki að borga í ríkissjóð ef þau verða jafnskuldsett sjálf?