140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem vekur athygli og hv. þingmaður kom kannski inn á er að við sjáum að þetta var í rauninni ekki kannað áður en farið var af stað með málið. Það sem ég velti fyrir mér er hvað við gerum ef staðan er sú að menn leggja það mat á frumvörpin að það sé einhvers konar skaðabótaskylda eða hvað á að kalla það gagnvart þessum aðilum. Er það þá svo að í samningum væntanlega, ég náði ekki alveg hvað þingmaðurinn sagði áðan, við þessa kröfuhafa sé einhvers konar varnagli sem lýtur að þessum hlut?

Hins vegar er staða útgerðarfyrirtækja, hvort sem það er ein trilla eða tvö skip stór, og það eru tveir aðilar eða þrír farnir að bítast um hagnaðinn sem kann að verða, útgerðaraðili sem vill fjárfesta, bankinn sem á skuldir hjá því fyrirtæki og svo ríkissjóður sem vill taka eitthvað til sín, maður veltir fyrir hver sé staða slíkra fyrirtækja til frekari fjárfestinga og hugsanlega að skuldsetja sig, til að ná fram betri fjárfestingum til að endurnýja sig eða til að auka hagkvæmni enn meira í greininni með einhvers konar uppkaupum eða sameiningu.