140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær kröfur sem hafa komið fram um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, verði við þessa umræðu. Þetta geri ég af fullri virðingu fyrir hæstv. menntamálaráðherra sem flutti mál sitt mjög vel og skýrt í dag og er greinilega ágætlega inni í þessum málum, en umræðan hefur þróast með þeim hætti hér í dag að það hafa komið fram upplýsingar og vaknað margar spurningar sem nauðsynlegt er að fá einhver svör við frá hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Við höfum verið að lesa um þá kúvendingu sem hefur orðið á afstöðu hans gagnvart veiðigjaldi. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra geti svarað því af hverju það hefur skolast svona til hjá honum, af hverju afstaða (Forseti hringir.) hans hefur breyst svona mikið. Við heyrðum upplýsingar frá fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóni Bjarnasyni, sem er eiginlega (Forseti hringir.) nauðsynlegt að núverandi ráðherra svari fyrir.