140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:04]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er greinilega hlaupinn svefngalsi í hluta þingmanna sem eru farnir að endurtaka ræður sínar frá því fyrr í dag. (Gripið fram í: Stórgott.) Það eru einir tíu klukkutímar síðan ég heyrði þessar ræður þar sem menn efuðust fyrir fram um að hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir gæti sinnt þeim störfum sem hún gegnir í dag, því starfi að vera sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. [Kliður í þingsal.] Nú koma menn fullir yfirlætis og segja að hún hafi svo sem svarað því sem hún getur svarað, en það sé nú svo sem eins og það er.

Frú forseti. (GÞÞ: Er það yfirlæti?) [Hlátur í þingsal.] Hjá hv. síðasta ræðumanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fór til að mynda ekkert á milli mála hver afstaða hans var. Þetta er fín umræða og við höldum henni áfram. Hæstv. ráðherra situr hér og leiðir hana, fylgist með hverju orði og er vonandi síðust á mælendaskrá. Ég hlakka til að heyra ræðu hennar þá.