140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú vona ég að sem flestir stjórnarliðar hafi verið að fylgjast með, þeir hafi fylgst með og lært. Nú tókst mér með skynsamlegri nálgun að fá formann hægri flokksins, frjálshyggjuflokksins á Íslandi, Sjálfstæðisflokksins, til að viðurkenna að það þurfi að blanda inn í sjávarútvegsstefnuna samfélagslegum og félagslegum atriðum. (Gripið fram í: Við erum allir framsóknarmenn.) Við erum allir framsóknarmenn, kallar einn hv. þingmaður sjálfstæðismanna fram í. (Gripið fram í.) Það er nefnilega alveg rétt, inn við beinið eru líklega allir góðir menn framsóknarmenn, það er bara misdjúpt á þeim. Þetta svar hv. þingmanns, formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, áðan sýnir okkur að það er hægt að ná samstöðu í þessu máli. Hið sama má segja um andsvar hv. þm. Kristjáns L. Möllers við mig áðan. Þegar allt kemur til alls getum við með skynsemina að vopni náð samstöðu um hagkvæmt (Forseti hringir.) og sanngjarnt kerfi í sjávarútvegi ef menn reyna bara að temja sér almennileg vinnubrögð.