140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

veiðigjöld.

[10:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefur einkennt þetta kjörtímabil til þessa að ríkisstjórnin hefur verið stefnulaus í stærstu málunum. Við þekkjum það hvernig stjórnarflokkarnir tveir kynna ólíka stefnu og ólíkar áherslur í Evrópusambandsmálunum. Við höfum séð mikil átök. Þó að málið sem snertir rammaáætlun sé ekki komið fram hafa verið mikil átök í því á bak við tjöldin. Ég gæti nefnt fleira en ætla að staldra hér við sjávarútvegsmálin.

Er það ekki staðreynd sem forsætisráðherra verður að horfast í augu við að ríkisstjórnin hefur líka verið stefnulaus í því máli? Er það ekki staðreynd að það var lagt upp með það í upphafi þessa kjörtímabils að fyrna allar aflaheimildir? Er það ekki staðreynd að það tók næstum þrjú ár að komast að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt? (Gripið fram í.) Er það ekki staðreynd að allar fyrri hugmyndir ríkisstjórnarinnar til breytinga á fiskveiðikerfi okkar Íslendinga hafa fengið fullkomna falleinkunn hjá öllum umsagnaraðilum? Er það ekki dálítið ósanngjarnt hjá forsætisráðherra sem stýrir störfum ríkisstjórnarinnar að skella allri skuldinni á hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra þegar kemur að því að ræða hvers vegna ekki hafi meira gerst í málaflokknum á þessu kjörtímabili? Er það ekki einfaldlega vegna þess að Samfylkingin var frá upphafi með fullkomlega óraunhæfar hugmyndir um fyrningu aflaheimilda? Þær gengu ekki upp og það tók þetta langan tíma að komast að niðurstöðu um það. Hver er annars stefna Samfylkingarinnar þegar kemur til dæmis að gjaldtöku á greinina, veiðigjaldinu?

Nú sjáum við að frumvarpið sem lagt hefur verið fram af ríkisstjórninni virðist ætla að setja hvert fyrirtækið á fætur öðru lóðrétt á hausinn. Ætla menn að taka auðlindarentu miðað við eitthvert meðalfyrirtæki eins og menn vildu gjarnan hafa það eða ætla menn að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er í íslenskum sjávarútvegi í dag (Forseti hringir.) og taka það sem er umframhagnaður hjá einstökum fyrirtækjum? Á kannski bara að taka harða ríkisstjórnarlínu, þ.e. segja: Svona viljum við gjarnan að fyrirtækin séu (Forseti hringir.) eða svona ættu þau að vera og svo ætlum við að skattleggja þau í samræmi við það?