140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda.

[11:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mig langar undir þessum lið að vekja athygli á miklu og stóru áhyggjumáli sem er ekki nýtt af nálinni á Íslandi en hefur komið dálítið sterklega upp á yfirborðið undanfarið og verið kynnt meðlimum velferðarnefndar, m.a. á fundi í gær og oftar. Það hefur komið upp á yfirborðið í störfum umboðsmanns skuldara og af reynslunni af nýjum greiðsluaðlögunarlögum. Vandinn er sá að það er að koma sterklega í ljós hópur í samfélaginu sem hefur enga eða neikvæða greiðslugetu til að standa straum af láni til húsnæðiskaupa eða húsaleigu, sem sagt hópur sem hefur í raun og veru ekki efni á því að framfleyta sjálfum sér og börnum sínum og hvað þá efni á því að kosta þak yfir höfuðið. Þessi hópur telur hundruð manna og hefur komið mjög augljóslega upp á yfirborðið í störfum umboðsmanns skuldara. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. velferðarráðherra um þetta og spyrja hann einfaldlega hvort eitthvað standi til. Um leið og öll áherslan hefur verið lögð á skuldavanda heimilanna, öll sú réttmæta áhersla, höfum við náttúrlega gleymt því að nú sem fyrr í íslensku samfélagi er einfaldlega stór hópur sem glímir við tekjuvanda. Hann hefur einfaldlega ekki tekjur til að framfleyta sjálfum sér eða standa straum af kostnaði við húsnæði og gildir þá í raun og veru einu og er engin lausn fyrir þann hóp að fella niður skuldir á hann heldur þarf að taka á vandanum tekjumegin. Mig grunar að þetta sé að stórum hluta til barnafólk (Forseti hringir.) og ég vil spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort eitthvað standi til.