140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er afar athyglisverð spurning, sérstaklega er hún athyglisverð af því að henni er beint til mín og sérstaklega athyglisvert að þingmaðurinn haldi að hann fái svar við henni, vegna þess að eins og alþjóð veit setti ég facebook-færslu á vegginn minn fyrir stuttu sem olli þvílíku uppnámi að allt varð vitlaust í þinginu. Hvernig dettur hv. þm. Birni Vali Gíslasyni í hug að ég fari að uppljóstra um það sem gerist inni á nefndarfundi eftir þá útreið sem ég fékk eftir að hafa sett á facebook-síðuna hjá mér upplýsingar sem áttu erindi til allrar þjóðarinnar og vörðuðu stjórnarskrána? Ég var ekki á lokuðum fundi utanríkismálanefndar að ræða þjóðaröryggismál.

Varðandi þær hótanir sem ég vísaði í í þingsal fór ég yfir framsöguræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur í morgun þar sem hún hótaði þingmönnum stjórnarandstöðunnar því að ef þeir mundu ekki greiða atkvæði um þetta mál í dag, að hleypa þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum, væri það á okkar ábyrgð ef málið fengi ekki framgang. Ég veit alveg hvað felst í því. Að halda áfram að keyra spunann um að það sé fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn sem vilji ekki breyta stjórnarskrá. Innst inni veit þingmaðurinn að tæpast er meiri hluti í ríkisstjórninni fyrir þessu máli sem á að keyra í gegn og ríkisstjórnarflokkarnir eru hálfvegis að vonast til þess að við í stjórnarandstöðunni stundum hér málþóf til að koma málinu frá. Það voru hótanirnar sem ég var að tala um, þau orð sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hafði uppi í morgun.