140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósammála þeirri aðgreiningu sem hv. þingmaður gerði hér í máli sínu gagnvart afstöðunni til náttúruauðlinda. Ég lýsi því yfir, frú forseti, að ég er enn sömu skoðunar og ég taldi að hann væri þegar við urðum sammála, við hv. formaður Sjálfstæðisflokksins, og sátum báðir í sérstökum starfshópi fyrrverandi stjórnarskrárnefndar, um það hvernig bæri að túlka hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum og sammála um rökstuðninginn líka. Það breytir ekki hinu, frú forseti, að hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, er að reyna að dylja slóð flokksins. Hann er að reyna að fela þá staðreynd að það er Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur hér fyrir málþófi til að koma í veg fyrir að fólkið í landinu fái að kjósa um stjórnarskrárdrögin samhliða forsetakjöri. Þess vegna beitti Sjálfstæðisflokkurinn sér gegn því og tókst að koma í veg fyrir að málið yrði rætt hér í síðustu viku, beinlínis til að setja það í þá erfiðu stöðu sem það er núna. Staðreyndin er sú að á miðnætti er úti fresturinn sem við þurfum að uppfylla til að þetta sé hægt. (Gripið fram í.) Þannig er Sjálfstæðisflokknum að takast að koma í veg fyrir að fólkið fái að kjósa um stjórnarskrána.

Ég tel að þetta sé einbeittur brotavilji af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér gegn því að þetta sé hægt þegar vindur fram um vorþingið. Þess vegna tel ég að við eigum að skoða hvort færar séu aðrar leiðir til að fá fram vilja og afstöðu fólksins til þessa máls. Þá vísa ég til þess að það var enginn annar en formaður Sjálfstæðisflokksins sem fann upp þá leið sem byrjuð var í upphafi þessa máls, þ.e. að kveðja til þúsund manna þjóðfundar. Ef þessi einbeitti brotavilji Sjálfstæðisflokksins heldur áfram finnst mér alveg eins hægt að við tökum upp hina gömlu hugmynd Sjálfstæðisflokksins og kveðjum til þúsund manna þjóðfundar og látum hann fara yfir þessi stjórnarskrárdrög, þ.e. ef það er einbeittur vilji stjórnarandstöðuflokkanna að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að fólkið í landinu fái að greiða atkvæði um þessi drög í (Gripið fram í: Það er búið að …) þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. (Gripið fram í: Miklu betra …)