140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:35]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fer hverjum að verða ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er með þá stöðu í þessu máli að vera með 1:0 og þeir eru búnir að sparka boltanum út af og ætla sér að vinna leikinn með því að vera lengi að ná í hann.

Mig langar að beina einni spurningu til hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur í ljósi málflutnings hennar: Hvernig má það vera og hvernig fer það saman að talsmenn og þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýni stjórnarmeirihlutann fyrir óvandaðan undirbúning og of skamman aðdraganda að spurningum meiri hlutans sem lagðar eru fram en það megi síðan leggja fram breytingartillögur með spurningum sem eigi að samþykkja samdægurs? Hvernig fer það saman? Er það vegna þess að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þvílíkir snillingar að það þarf enga yfirferð yfir þeirra tillögur?

Það fer hverjum manni að verða ljóst, virðulegur forseti, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skeyta hvorki um skömm né heiður í þessu máli, hvorki um skömm né heiður eins og öll framganga þeirra sýnir.