140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allir þeir sérfræðingar sem Sjálfstæðisflokkurinn óskaði eftir því að kæmu að umfjöllun um málið í nefndinni voru fengnir á fund nefndarinnar þannig að það er alrangt að málið hafi ekki fengið þá reifun þar sem óskað var eftir. Eitt stendur eftir, það álit mitt að það sé réttur lýðræðislega kjörins meiri hluta á þingi að leita eftir ráðgefandi áliti hjá almenningi vegna þess að sú ákvörðun getur ekki skaðað neinn, hún ógnar ekki hagsmunum neins. Ég tel að sé rangt af minni hlutanum að beita tæknihindrunum til að koma í veg fyrir það. Það eru bara tæknihindranir þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur flutt 150 andsvör og hátt í 30 ræður um þetta litla mál. En auðvitað verður að vinna með málið áfram og kosturinn við að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna samhliða forsetakosningum er að þá er tryggð góð þátttaka vegna þess að það er góð þátttaka í forsetakosningum, en vandinn í eins máls atkvæðagreiðslu er því miður sá um allan heim að þar er oft erfitt að ná þátttöku mikið yfir 30%.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvað er þá til ráða ef umræðan á að dragast fram yfir miðnætti? Sér hann það fyrir sér að forsetakosningum yrði seinkað um eina eða tvær vikur til að þriggja mánaða skilyrðið væri uppfyllt? Sér hv. þingmaður fyrir sér að bráðsmellin tillaga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um að stytta fyrirvarana um þjóðaratkvæðagreiðslu væri samþykkt? Eigum við að fá Capacent Gallup til að hringja bara í þessa 200 þúsund Íslendinga, það kostar svipað og þjóðaratkvæðagreiðsla, og leita eftir þessu ráðgefandi áliti þannig eða eigum við að hafa rafræna atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) með svipuðum hætti og Reykjavíkurborg er að gera eða hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt sé að leita eftir lýðræðislegum vilja meiri hluta þjóðarinnar í málinu?