140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er athyglisvert að hlusta á suma þingmenn sem greinilega er mjög mikið niðri fyrir, eins og hæstv. ráðherra Guðbjarti Hannessyni, sem aldrei hefur tekið til máls í þessari umræðu, aldrei, hvorki við fyrri umr. né í síðari umr., ekki frekar en forsætisráðherrann. Hún hefur ekki einu sinni tjáð sig um málið, mál sem er sagt vera grundvallarmál ríkisstjórnarinnar, eitt af stóru málunum. Ekki eitt orð lagt í belg af forsætisráðherra eða þeim ráðherra sem síðast talaði.

Getum við ekki verið sammála alla vega um eitt: Við erum að tala hér um mál sem skiptir miklu fyrir þjóðina, fyrir framtíðina. Það varðar miklu ef menn ætla að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu að við fáum einhver svör sem skipta máli, sem segja einhverja sögu. Mín skoðun er sú og þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni og haft eitthvert efnislegt innlegg inn í þá umræðu sem þó hefur farið fram að það væru mistök að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti. (Forseti hringir.) Vilji menn hins vegar fara í þjóðaratkvæðagreiðslu gera menn það bara en er einhver ástæða til þess að hengja það saman við forsetakosningarnar? Er ekki allt í lagi að Alþingi vandi sig þegar um er að ræða endurskoðun á stjórnarskránni? Ég kalla eftir því að menn komi hér með efnislegt innlegg, eins og t.d. forsætisráðherrann sem er (Forseti hringir.) þetta svo mikið kappsmál. Eitt orð væri kannski betra en ekki neitt.