140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Eins og ég gat um í andsvari mínu áðan erum við með mjög stórt og mikilvægt mál í höndunum.

Ég vil byrja á því að harma það mikla samráðsleysi sem hefur einkennt undirbúning þessa máls og lýsa þeirri skoðun minni að vegna þess hve mjög hefur skort á samráð við hagsmunaaðila og vegna þess að málinu fylgir ítarleg úttekt á raunverulegum afleiðingum fyrir útgerðirnar í landinu þá bíður mikið verk þeirrar nefndar sem fær málið til umsagnar og miklu meiri vinna en hefði þurft að vera.

Almennt vil ég segja um atvinnugrein eins og sjávarútveginn að það skiptir gríðarlega miklu máli að menn átti sig á mikilvægi þess að efna til sem víðtækasts samráðs við gerð lagafrumvarpa um þau mál. Þannig hefur það ávallt verið og þannig hefði það átt að vera í þetta skiptið. Hér er verið að gera grundvallarbreytingar á veiðigjöldum sjávarútvegsins.

Á sínum tíma, í september árið 2000, skilaði auðlindanefnd álitsgerð með fylgiskjölum, ég hef hana hér í höndum, þar sem var farið mjög djúpt ofan í alla þessa þætti. Við höfðum þá skýrslu sem grundvöll umræðunnar í framhaldinu, hún var grundvöllur lagabreytinga sem fylgdu í kjölfarið.

Ég get líka vísað til annarra frumvarpa sem hér hafa verið lögð fram um það að menn hafa að jafnaði viðhaft mjög víðtækt og mikilvægt samráð í aðdraganda þess að mál á borð við þetta koma fram. Ekki ætla ég að hafa fleiri orð um það.

Þá er þess að geta næst að í frumvarpinu er að finna umsagnir sem virðast hafa verið fengnar eftir að drög að því voru tilbúin og jafnvel þótt þar hafi komið fram viðvaranir virðist ekki hafa verið tekið tillit til þeirra. Það sem hafa ber í huga þegar við ræðum um veiðigjöld og auðlindarentu af sjávarútveginum er að málið er hluti af stærra verkefni sem er að ákvarða gjaldtöku af nýtingu auðlinda almennt. Það sem mér sýnist og hefur maður þó einungis haft örfáa daga til að átta sig á áhrifum frumvarpsins er að gengið sé allt of langt í að heimta til ríkisins arð af nýtingu auðlindarinnar.

Ég vil í fyrsta lagi rifja það upp að í skýrslu auðlindanefndar var breið samstaða um að gjaldtöku fyrir nýtingu auðlindanna bæri að stilla í hóf. Það var ávallt talað um hóflegt veiðigjald.

Í annan stað vísa ég til þess að ekki eru nema nokkrar vikur eða örfáir mánuðir síðan hér var lögð fram langtímaáætlun í efnahagsmálum ríkisstjórnarinnar þar sem m.a. var horft til þess hverju gjaldtaka á sjávarútveginn gæti skilað ríkinu á næstu árum. Þar var gengið út frá því að tekjurnar af gjaldinu gætu vaxið á næstu árum og numið rúmum 10 milljörðum, ef ég man rétt. Þetta er allt hægt að lesa um í skýrslu sem kom út í nóvember. Örfáum vikum síðar, nokkrum mánuðum eftir að þessi langtímaáætlun var gerð af efnahagsráðuneytinu, kemur inn í þingið frumvarp sem hefur hækkað hugmyndir um gjaldtöku af þessari atvinnugrein um allt að tvo tugi milljarða. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli á nokkrum vikum hafa fundið matarholu upp á 20 milljarða í einni atvinnugrein.

Veltum því aðeins fyrir okkur hvaða upphæðir við erum að tala um. Það er rætt um það að í góðu ári geti gjöldin samanlagt, sérstaka gjaldið og hið almenna, skilað af sér um það bil 25 milljörðum. Útgerðaraðilar hafa sagt að þarna sé vanreiknað og gjaldið muni á endanum leggjast þyngra á greinina en gengið er út frá, en við skulum gefa okkur að gjaldið liggi einhvers staðar á bilinu 20–25 milljarðar á ári. Nú eru heildarskuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu, útgerðarinnar, áætlaðar um 400 milljarðar. Ef við gefum okkur að að meðaltali séu greiddir um 5% vextir af þessari skuldsetningu, sem er ekkert ofáætlað og að ég hygg ekkert sérstaklega vanáætlað, mundi það leggjast á útgerðina á ári sem 20 milljarða vaxtakostnaður, þ.e. um það bil sú tala sem er gengið út frá í frumvarpinu að kunni að verða endanleg gjaldtaka. Þetta þýðir með öðrum orðum að þessar hugmyndir um gjaldtöku jafnast á við 400 milljarða viðbótarskuldsetningu greinarinnar. Þetta ættu menn að hafa í huga þegar því er haldið fram að um hóflega gjaldtöku sé að ræða.

Maður er vakinn til umhugsunar þegar fyrstu viðbrögð við frumvarpinu berast. Það er alveg rétt að halda því til haga, sem sjávarútvegsráðherra hefur passað upp á að gera í hverju viðtalinu á fætur öðru, að menn eru að takast á um mikla hagsmuni. Það ber að hlusta af gagnrýni á viðbrögð þeirra sem gjaldið þurfa að greiða. Öll viðbrögð sem heyrast frá útgerðinni eru á einn veg. Þau viðbrögð eiga samhljóm í þeirri umsögn sem Daði Már Kristófersson gaf áður en frumvarpið var lagt fram.

Ég ætla aðeins að staldra við eina helstu athugasemd Daða Más Kristóferssonar. Hún snýr að því að sumar útgerðir kunni að geta borið þetta gjald, það er ekki þar með sagt að það verði skilinn eftir ásættanlegur arður af rekstrinum, en nokkuð ljóst er að hinar skuldsettari útgerðir muni ekki geta borið gjaldið og muni að öllum líkindum verða gjaldþrota. Hvers vegna getur sú staða komið upp? Það er vegna þess að á undanförnum tveimur áratugum hefur orðið gríðarlega mikil hagræðing í greininni þar sem aflaheimildir hafa skipt um hendur. Til þess að taka til sín aflaheimildir hafa þeir sem keypt hafa aðra út úr greininni eða að hluta sótt til aflaheimildir frá skuldsett sig. Þeir sem þannig hafa skuldsett sig nýlega og við getum með réttu kallað nýliða verða fyrir barðinu á þessu gjaldi, það hittir þá sérstaklega illa fyrir. Það hittir þá þannig fyrir að allar lýsingar sem við höfum, eins og í blaðaviðtölum, eru á þann veg; að þeir muni einfaldlega fara á hausinn. Síðan eru til rótgrónari fyrirtæki sem hafa langa rekstrarsögu og standa vel eins og Rammi á Siglufirði.

Við skulum staldra við það sem heyrst hefur frá Ólafi Marteinssyni, framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Ramma, en hann segir, með leyfi forseta:

„Fyrirtækið kemst strax í vanda og eftir tvö til fimm ár verður tvísýnt um framtíð þess. Fyrirtækið ætti fyrir veiðigjaldinu og vöxtum en gæti hvorki fjárfest né greitt af skuldum sínum að fullu.“

Síðan segir:

„Félagið breytist strax úr því að vera vel rekið félag með góða framlegð og viðunandi hagnað í félag sem ekki ræður við að greiða afborganir lána að fullu. Þess má geta að Rammi er ekki óhóflega skuldsett félag. Rekstrartekjur félagsins á árinu 2010 voru um 6,8 milljarðar króna. Framlegðin af rekstrinum var ríflega 30% eða um 2,1 milljarður kr. Verði hækkun veiðigjalds að veruleika sem og sú skerðing aflaheimilda sem nýju frumvörpin fela í sér hefur það þær afleiðingar að framlegðin lækkar um 860 milljónir.“

Fyrir vikið fer skuldastaða félagsins á þann veg að myndin gjörbreytist. Í stuttu máli segir framkvæmdastjórinn að félagið fari úr því að vera vel stöndugt félag, sem ráði við skuldir sínar, yfir í það að lenda í meiri háttar vandræðum.

Þessar lýsingar, sem bæði koma frá vel stöndugum fyrirtækjum og eins þeim sem nýlega hafa skuldsett sig, vekja mann til umhugsunar vegna þeirrar aðferðafræði sem frumvarpið beitir, sem er að búa til einhvers konar meðalsjávarútvegsfyrirtæki og skammta því hóflega arðsemi og skella svo gjaldtöku ofan á alla greinina á grundvelli meðalsjávarútvegsfyrirtækis. Þannig er veruleikinn því miður ekki.

Þessi aðferðafræði rifjar upp sögu sem mér var eitt sinn sögð af einkaleyfastofu austan járntjaldsins þar sem maður kom með kassa á einkaleyfastofuna í einu af gömlu járntjaldsríkjunum, austantjaldsríkjunum, og óskaði eftir því að fá einkaleyfi fyrir kassann. Á móti honum tekur starfsmaður sem segir: Að hverju lýtur einkaleyfið? Hvaða uppfinningu ertu með í höndunum? Hann segir: Jú, maður stingur andlitinu inn í gatið á þessum kassa og þá koma hnífar sem raka mann þannig að kinnar manns verða eins og barnsrass. Það er nefnilega það, segir maðurinn. Hann skoðar tækið nákvæmlega og spyr svo: Fyrirgefðu, hvernig taka hnífarnir tillit til þess að andlitin eru ekki öll eins í laginu, andlitsfall fólks er mismunandi? Þá segir þessi mikli uppfinningamaður: Ja, það er nú bara vandamál í fyrsta skiptið sem vélin er notuð, [Hlátur í þingsal.] eftir það eru allir eins í framan.

Mér finnst eins og það örli á þessari hugsun þegar menn telja að það sé hægt að skella gjaldi á sjávarútvegsfyrirtækin alveg óháð því hvernig efnahagsreikningur þeirra er uppbyggður. Það er þess vegna sem við fáum þessi miklu viðbrögð, sérstaklega frá þeim sem hafa verið að skuldsetja sig að undanförnu.

Nefndarinnar, sem fær þetta mál til umsagnar, bíður mikil vinna við að leggja raunhæft mat á það hvað sé sanngjarnt og eðlilegt að menn fái í ávöxtun af áhættufé sem þeir leggja í rekstur eins og þennan.

Ég vil taka það fram hér í umræðunni og ég tel að það skipti miklu máli að það komi snemma fram að Sjálfstæðisflokkurinn á þá sögu í þessu máli að hafa innleitt veiðigjaldið í ríkisstjórnartíð sinni. Það er ekki deilt við Sjálfstæðisflokkinn um það að sanngjarnt er að greinin greiði gjald. Við höfum hins vegar tekist á um það hér á þingi í langan tíma hversu hátt gjaldið eigi að vera. Ég tel að hér sé komið frumvarp sem gengur allt of langt í gjaldtökunni. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það kunni vel að vera hægt að finna einhvern sáttaflöt við útgerðina í landinu. Mér finnst sá tónn vera sleginn.

Ef ég veit rétt var kallað eftir því í gær að koma á fót sáttanefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi. Ég veit ekki hvernig verður brugðist við því af stjórnvöldum en það er vel hægt að vinna þetta með gegnsæjum, opnum hætti þar sem raunverulegar rekstrartölur úr greininni eru lagðar á borðið og menn ræða bara opinskátt og bera saman við aðrar greinar hvað sé sanngjarnt og eðlilegt að menn hafi í ávöxtun fyrir áhættufé. Í þessu máli virðist ekki vera gert ráð fyrir því að menn geti haft nokkra einustu ávöxtun af því mikla áhættufé sem þarf að leggja í þennan rekstur. Menn ættu t.d. að skoða söguna í uppsjávarveiðum til að gera sér grein fyrir því hversu mikla áhættu menn taka í raun og veru þegar þeir fjárfesta í slíkum veiðum.

Sjáið til dæmis Ísfélagið í Vestmannaeyjum sem er nú að taka til sín 4 milljarða fiskiskip til að stunda uppsjávarveiðar. Þegar horft er til þess hverjar sveiflurnar hafa verið í stofninum í uppsjávarveiðum, sama hvort er loðna, síld, makríll eða kolmunni, þá er augljóst að menn eru að taka töluvert mikla áhættu með þessari stóru fjárfestingu. Auðvitað væri kannski hægt einhvern tímann í framtíðinni að losa sig við skipið ef stofnarnir hverfa, en það er sanngjarnt og eðlilegt að áskilja sér ávöxtun af slíkri risafjárfestingu og það hefur algerlega skort í þessu máli að gera ráð fyrir því. Afleiðingin af því að menn gera ekki ráð fyrir eðlilegri arðsemi í greininni og nauðsynlegum fjárfestingum er sú að fjárfesting hverfur.

Á meðan óvissa ríkir um lyktir þessa máls hér mun útgerðin í landinu fresta öllum áformum um endurnýjanir, fjárfestingar, viðhald og þjónustukaup. Það er alvarleiki málsins. Þess vegna er slæmt að málið skyldi koma fram í þessum búningi. Ég harma það mjög að ekki skyldi hafa verið leitað víðtækara samráðs. Hugmyndirnar sem er að finna (Forseti hringir.) í þessu frumvarpi eru óraunhæfar.