140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:01]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil örstutt koma inn á frumvarp til laga um veiðigjöld eins og komið hefur rækilega fram í umræðunni, bæði í framsögu ráðherra og annarri umræðu. Málið hefur ætíð verið nokkuð umdeilt, reyndar mjög umdeilt vegna þess hvernig það skuli innheimt og hversu hátt það skuli að vera og eins hvernig því síðan skuli ráðstafað. Það hefur komið rækilega fram í þessari umræðu.

Ég vil halda til haga sjónarmiði mínu varðandi veiðigjald og ákvörðun þess. Ég hef að sjálfsögðu verið fylgjandi því að tekið væri veiðigjald og það væri hóflegt. Horft væri til þess hvert markmiðið væri með töku veiðigjalds og hvaða afleiðingar það hefði fyrir viðkomandi útgerðir sem eru mjög breytilegar hér á landi sem betur fer, bæði að stærð og gerð eftir því á hvers konar veiðum skipin eru, hve stór hluti fer til vinnslu í landi o.s.frv. Það er því mjög mikilvægt að slíkt gjald taki mið af því. Það er í sjálfu sér lagt til í þessu frumvarpi þó að það sé ekki útfært ítarlega þannig að menn sjái hvernig það kemur út endanlega, sú hugmyndafræði kemur þó fram þar eins og í eldri frumvörpum sem lúta að veiðigjaldstöku.

Umræðan um hvað veiðigjald er og hvað er tekið með sköttum er svo líka álitaefni. Mörkin á milli töku veiðigjalds og almennrar skattheimtu eru ekki svo skýr en þurfa að vera það eins og kostur þannig að markmiðið með töku veiðigjalds sé skýrt, eins og ég sagði áðan.

Ég hef þess vegna talið að gæta skuli mjög hófs í þessum efnum, ég hef sagt það áður og núverandi sjávarútvegsráðherra veit þá afstöðu mína. Ég tel upphæð veiðigjaldsins vera allt of háa í frumvarpinu. Til viðbótar því hef ég lagt áherslu á að hver svo sem upphæð veiðigjaldsins verður verður líka horft á að farið er fram hjá venjulegum skattareglum — það er jú hægt að skattleggja þessi fyrirtæki eins og önnur eftir hefðbundnum skattaleiðum — og þarna er verið að taka fjármagn út úr greininni og þá frá sjávarbyggðunum. Það getur verið sérstaklega sárt í þeim sjávarbyggðum þar sem sjávarútvegurinn er undirstaða allrar atvinnu, öll starfsemi snýst í kringum hann. Slíkt getur í þeim tilvikum dregið fjármagn, ekki bara út úr greininni heldur út úr viðkomandi byggðarlagi.

Það er mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu um leið og rætt er um veiðigjald. Ég vil þess vegna minna á að í þeim frumvörpum sem ég hef flutt sem komið hafa inn á veiðigjald hef ég gert það að ófrávíkjanlegri kröfu og reglu að hluti veiðigjalds renni aftur til sjávarbyggðanna eftir ákveðinni reiknireglu, hluti af markmiðinu með upptöku veiðigjalds er að það renni til sjávarbyggðanna. Mér er kunnugt um að núverandi sjávarútvegsráðherra var á sömu skoðun og ég í þeim efnum, að minnsta kosti á árum áður.

Ég vil þess vegna gera fyrirvara við bæði upphæð veiðigjaldsins, verði það tekið upp, og hvernig því verður skipt. Ég vil sjá nánar hvernig það verður útfært og eins að hluti af því renni aftur til sjávarbyggðanna með skilgreindum hætti.

Ég leyfi mér að vitna örstutt til álitsgerðar sem Vífill Karlsson hagfræðingur vann í tengslum við það þegar við unnum þau frumvörp sem áður hafa komið fram varðandi stöðu sjávarbyggðanna í þessum efnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Framan af 20. öldinni var mikill vöxtur í frumvinnslugreinunum. Almenningur lét ekki sitt eftir liggja heldur fylgdi uppbyggingunni eftir og byggði sér heimili en sveitarfélögin byggðu upp nauðsynlega þjónustu af ýmsu tagi. Frá upphafi níunda áratugarins hafa frumvinnslugreinarnar farið í gegnum mikla og langvarandi endurskipulagningu í kjölfar gjörbreytts rekstrarumhverfis. Þetta hefur gengið nærri þeim samfélögum sem hafa byggst að miklu leyti upp á grunni þeirra og á þessum tíma urðu greinileg kaflaskil í íbúaþróun þar til hins verra. Þessi samfélög hafa setið uppi með fjárfestingar sem heft hafa uppbyggingu á þeirri þjónustu sem íbúar gera kröfu til í dag. Afleiðingarnar eru þær að myndast hefur stór gjá á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu að þessu leyti sem hefur í raun stigmagnað vandann. Möguleikar þessara sveitarfélaga til að auka tekjur sínar fara stöðugt þverrandi þar sem íbúum fjölgar mjög lítið eða jafnvel fækkar.“

Vissulega hefur orðið í sumum byggðarlögum snúningar á því núna upp á síðkastið og ekki síst út af því hvað þessar frumframleiðsluatvinnugreinar hafa gengið mjög vel á síðastliðnum tveimur, þremur árum.

En áfram er vitnað í Vífil Karlsson:

„Þegar horft er til uppruna og ráðstöfunar opinbers fjármagns benda bráðabirgðaúttektir til að annarri hverri skattkrónu almennings af landsbyggðinni sé endanlega ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Það grefur undan staðbundnum hagvexti á landsbyggðinni. Þessu þyrfti að vera öfugt farið á svæðum sem farið hafa í gegnum þá miklu endurskipulagningu og þrengingar sem þeim fylgdu frá upphafi níunda áratugarins og nefndar voru áðan. Því má segja að standi hugur ráðamanna til að hækka veiðigjald í sjávarútvegi sé mikilvægt að hluti þess renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara sem leiddi óhjákvæmilega til frekari brottflutninga íbúa. Beinast liggur við að endurgreiðslan renni til viðkomandi sveitarfélaga. Með því er báðum sjónarmiðum mætt, þ.e. í fyrsta lagi að stuðla að því að ekki verði enn frekari samdráttur á landsbyggðinni og í öðru lagi að veiðigjaldið fari frá þeim sem nýta auðlindina og til þjóðarinnar í gegnum rekstur hins opinbera og almannaþjónustu. Þetta er einnig mikilvægt í ljósi þess að fjárhagur margra þessara sveitarfélaga er ekki góður af þeim sökum sem áður sagði og mörg þeirra nutu ekki ávaxta svokallaðs góðæris. Þá var gengi íslensku krónunnar sterkt um tíma og nærri sögulegu hámarki sem setti enn meiri pressu á útflutningsgreinar eins og sjávarútveginn.“

Áfram fjallar Vífill Karlsson um þetta efni og leggur áherslu á að þegar farið sé í svona gríðarlega skattheimtu á eina atvinnugrein sem er tiltölulega staðbundin eða svæðisbundin eða tengd einstökum byggðarlögum sem þarna eiga hlut að máli og eiga allt sitt undir, eigi að horfa til þess að féð renni aftur þar til hennar, að minnsta kosti að hluta.

Þess vegna finnst mér, ég bara segi það alveg hreinskilnislega, að í því frumvarpi sem hér liggur fyrir vera miklu harðari og ákveðnari markaðsvæðing á hlutunum frá því sem áður var og ég hef lagt til, og horft meira frá hinum félagslegu þáttum, sérstaklega því sem lýtur að rétti sjávarbyggða.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, frú forseti. Í þeim frumvörpum sem komu frá mér sem sjávarútvegsráðherra varðandi þessi mál, bæði í frumvarpi sem flutt var og samþykkt í vor, svo í minni frumvörpum og frumvarpsdrögum sem unnin hafa verið, er það rauði þráðurinn í gegnum þau að þegar farið er í svona skattheimtu horfir maður til markmiðanna og hvert fjármagnið rennur. Ég tel að í þessu frumvarpi sé gengið á rétt og möguleika sjávarbyggðanna, sérstaklega þeirra minni. Ég tel mjög mikilvægt að farið verði í gegnum þessi mál mjög rækilega í meðferð þingsins og það eru fyrirvarar mínir við málið.