140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

innlán heimila og fjármagnstekjur.

720. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að það er alveg sársaukalaust af minni hálfu þó að virðulegi forseti setji einhvern annan hæstv. ráðherra hér til svara, bara að því gefnu að svar komi. Ég geri engar athugasemdir við að fyrirspurn minni sé beint til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Ástæðan fyrir því að ég kem fram með þessar spurningar er sú að ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um þróun á innlánum einstaklinga í fjármálastofnunum. Svarið kom mér mjög á óvart en innlán heimila hafa lækkað gríðarlega á undanförnum árum. Þau hafa lækkað um 142 milljarða frá árinu 2008 til 2011. Þrátt fyrir að fjármagnstekjuskattur hafi hækkað mjög mikið, og kannski miklu frekar vegna þess, hafa tekjur ríkisins vegna fjármagnstekjuskatts af innlánum heimila lækkað um 3 milljarða á þessum tíma.

Virðulegi forseti. Nú er það ekki þannig að fólk sem á einhverja fjármuni hafi marga möguleika núna, í það minnsta hefur þeim möguleikum fækkað nokkuð eftir bankahrunið þar sem hér var áður nokkuð stór hlutabréfamarkaður. Ég vil þess vegna inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann telji ekki skynsamlegt að endurskoða þessa skattstefnu því að ýmislegt bendir til þess að hækkun á fjármagnstekjuskatti og sömuleiðis nýupptekinn eignarskattur leiði til þess að við fáum lægri skatttekjur þrátt fyrir að skattprósenta hafi hækkað, og að sú þróun sé miklu hraðari en maður hefði kannski trúað.

Ég spyr þess vegna hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tveggja spurninga:

1. Hver eru viðbrögð ráðherra við lækkandi innlánum heimilanna?

2. Telur ráðherra ástæðu til þess að endurskoða stefnu ríkisstjórnar hvað varðar skatt á fjármagnstekjur?