140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

erlend lán hjá Byggðastofnun.

595. mál
[16:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli mínu hér áðan verður vanda hvers og eins skuldara sem stafar af hækkun erlendra lána vegna gengisfalls krónunnar mætt með einstaklingsbundnum hætti. Þannig er að hið opinbera getur ekki mismunað lántakendum sem gerðu lögmæta samninga við sínar lánastofnanir eftir því hjá hvaða stofnun þeir tóku lánin. Reynist það rétt að allir samningar Byggðastofnunar séu í samræmi við íslensk lög ber auðvitað að fagna því, en það er alltaf dómstóla að skera úr um það. Mér er kunnugt um að að minnsta kosti eitt dómsmál hafi verið höfðað til ógildingar slíkum lánasamningi hjá Byggðastofnun.

Byggðastofnun bárust nýverið, eins og öllum fjármálafyrirtækjum í landinu, fyrirmæli um athugun á þýðingu þess ef dómsmál af því tagi færu á versta veg eða lán þeirra féllu undir nýlega dóma Hæstaréttar. Unnið er að verkefninu í samráði við Fjármálaeftirlitið og er niðurstöðu að vænta innan skamms. Það er mat lögfræðinga Byggðastofnunar að litlar líkur séu á því að slíkt mál tapist en engir dómar hafa hingað til fallið sem veitt gætu vísbendingu um að stofnunin yrði af þeim sökum að endurreikna erlend lán sín.

Virðulegi forseti. Sú leið sem stjórnvöld beittu sér fyrir til að leysa fjárhagsvanda fyrirtækjanna var Beina brautin og eftir henni hefur Byggðastofnun farið og horft á vanda hvers og eins skuldara út frá hans sérstöku stöðu og við það mun Byggðastofnun halda sig. En það að Byggðastofnun skuli hafa gert löglega samninga og farið eftir leikreglunum getur ekki verið annað en gleðiefni.